Fréttir eftir árum


Fréttir

Aldrei fleiri umsóknir borist um meistaranám

8.6.2021

Háskólanum í Reykjavík hafa borist um 3.800 umsóknir um nám skólaárið 2021-2022 en umsóknarfrestur um grunnnám rann út 5. júní. Það er svipaður heildarfjöldi umsókna og síðasta haust. Umsóknum um meistaranám fjölgar um 5% milli ára og hafa þær aldrei verið fleiri. 

Umsóknir um grunnnám eru um 6% færri en við lok umsóknarfrests í fyrra, en þá var umsóknarfrestur framlengdur til 15. júní. Enn er opið fyrir umsóknir í Háskólagrunni HR og í fjölbreytt sumarnámskeið, og í einstakar námsbrautir í grunn- og meistaranámi.

Yfir 1700 manns hófu nám við háskólann síðasta haust og hafa aldrei jafnmargir nýnemar hafið nám við HR og þá. Vonast er til að hægt verði að taka inn svipað marga nemendur í nám við háskólann í haust.

Flestar umsóknir bárust um nám við viðskiptadeild, tæpar þúsund, og fjölgar þeim um 4% milli ára. Hlutfallslega fjölgar umsóknum hins vegar mest um nám í lagadeild eða um 10%. Sé horft til einstakra námsbrauta bárust flestar umsóknir um grunnnám í BSc í tölvunarfræði en flestar umsóknir um meistaranám eru um nám í klínískri sálfræði. Þá hefur áhugi á byggingarfræði aukist mjög mikið undanfarin tvö ár og 100 umsóknir bárust nú um nám í þeirri grein.