Fréttir eftir árum


Fréttir

Alþingi og tækni- og verkfræðideild skrifuðu undir samning um talgreini

24.9.2018

Byggir á gervigreind

Fulltrúar tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík og Alþingis skrifuðu nýlega undir samning um framhald þróunar og innleiðingu á talgreini sem verður notaður við útgáfu þingræðna. Vinna við talgreini sem byggir á gervigreind er vel á veg komin og tilraunir til að nota talgreininn til að skrá niður niður ræður á Alþingi hafa gengið ágætlega.

Skrifar upp ræðurnar

Verkefnið hófst fyrir tveimur árum og var byrjað á því að smíða frumgerð af talgreini sem greindi upptökur af ræðum alþingismanna. Í framhaldi af því var hafist handa við að þjálfa og prófa mismunandi útfærslur á talgreiningu. Í seinni hluta verkefnisins, sem nú er hafinn, er gert ráð fyrir að talgreinirinn verði samþættur við tölvukerfi Alþingis og settir verði upp ferlar sem nýti talgreininn við fyrsta skrefið í að skrifa upp ræður þingmanna. Talgreiningarverkefnið er unnið í opnum hugbúnaði sem ætti að geta nýst mörgum öðrum sem þurfa að breyta töluðu máli í skrifaðan texta.

Um máltækni

Það eru vísindamenn og doktorsnemar á sviði máltækni sem hafa unnið að talgreininum innan tækni- og verkfræðideildar. Máltækni er rannsóknar- og þróunarsvið sem hefur það að markmiði að þróa búnað sem getur unnið með og skilið náttúruleg tungumál og stuðlað að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu.

Lesa um meistaranám í máltækni

Hópur fólks situr í kringum stórt borð Við undirritun samningsins: Ágúst Valfells, forseti tækni- og verkfræðideildar, Jón Guðnason, dósent við tækni- og verkfræðideild, Þorbjörg Árnadóttir, forstöðumaður upplýsingatækniskrifstofu Alþingis, Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, og Ingvar Þór Sigurðsson, forstöðumaður þingfundaskrifstofu Alþingis.