Fréttir eftir árum


Fréttir

Alþjóðlegt kennsludæmi um íslenskan banka

26.9.2014

Dr. Murray Bryant er kennari við MBA-nám HR og prófessor við Ivey Business School, elsta viðskiptaháskóla Kanada. Hann hélt fyrirlestur í HR þann 24. september sl. þar sem hann kynnti raundæmi sem hann hefur skrifað um Landsbankann frá árinu 2008 til ársins 2010 og ber heitið Iceland´s Landsbanki Islands HF: Where to from here?

Í raundæminu (e. case) er fjallað er um þær áskoranir sem nýir stjórnendur bankans stóðu frammi fyrir í kjölfar hrunsins og því erfiða verkefni að byggja upp traust að nýju.

Bryant er áhugasamur um sögu íslensks viðskiptalífs og hefur skrifað raundæmi, eða kennsludæmi (e. case) um íslenskt viðskiptalíf sem notuð eru í kennslu í mörgum bestu viðskiptaháskólum heims.

Fyrirlestur dr. Murray Bryant

Á fundinum tóku jafnframt til máls Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, og Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. Fundarstjóri var Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar HR.

Þann 2. október næstkomandi eru 50 ár liðin frá því að Tækniskóli Íslands, síðar Tækniháskóli Íslands, var settur í fyrsta sinn en hann var sameinaður Háskólanum í Reykjavík árið 2005. Hluti af hátíðarhöldunum er opin fyrirlestraröð í HR þar sem fræðimenn fjalla um rannsóknir á kjarnasviðum háskólans: tækni, viðskiptum og lögum.