Fréttir eftir árum


Fréttir

Árangur Íslendinga í forvörnum gegn vímuefnum eftirtektarverður

6.5.2015

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent á sálfræðisviði HR, var annar viðmælenda í þættinum Hringborðið á RÚV þann 4. maí sl. Bryndís er í starfshópi sem settur var á laggirnar í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu um lög um vímuefni og mögulegar breytingar á þeim. 

Hlutverk hópsins er að móta stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu. Stefnt er að því að skýrsla starfshópsins liggi fyrir áður en þing kemur aftur saman að hausti.

Ekki einsleitur hópur

Bryndís lýsti starfi hópsins. „Við lítum á markmið okkar núna að skoða stöðuna og gögn sem liggja fyrir um hvernig hefur gengið á Íslandi sem ákveðinn leiðarvísi um hvert skal halda í framtíðinni.“ Að hennar sögn er gríðarlega mikilvægt að líta á stóra samhengið þegar málin eru rædd. „Þegar talað er um útbreiðslu vímuefnaneyslu er mikilvægt að skilgreina hvaða hópa við erum að skoða. Í þessari þingsályktunartillögu er sjónum beint að þeim sem eru í hvað mestri neyslu og eiga mjög erfitt uppdráttar í samfélaginu. Hins vegar erum við líka með hóp í samfélaginu sem hefur prófað neyslu þessara efna en leiðist ekki út í eins mikla neyslu.“ Einn helsti tilgangurinn með skýrslu hópsins verði því að reyna að minnka þann heildarhóp sem sé í neyslu og eigi við vandamál að stríða. 

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir

Forvarnir hafa gefið góða raun

Í þættinum var rætt um afglæpavæðingu og voru viðmælendur sammála um að það sé flókin hugmynd og erfið í framkvæmd. Mikið sé horft til svokallaðrar portúgölsku leiðar þar sem ekki er refsivert að vera með neysluskammt á sér og neysla er ekki ólögleg en dreifing og framleiðsla er ólögmæt. Bryndís segir niðurstöður kannana hafa sýnt að meirihluti landsmanna hér sé andvígur því að lögleiða kannabis. 

„Forvarnir á Íslandi hafa mikið beinst að ungu fólki undanfarin ár og við erum að sjá miklar breytingar í viðhorfum unglinga til ólöglegra vímuefna. Við á Íslandi höfum náð gríðarlega miklum árangri í forvörnum meðal barna og unglinga á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna að árið 1997 höfðu 63% 10. bekkinga einhvern tímann orðið drukkin samanborið við einungis 13% nú árið 2015. Þá hafa reykingar minnkað verulega á þessu sama tímabili sem og neysla ólöglegra vímuefna. Þá má nefna að íslensk ungmenni eru mun óliklegri til þess að hafa notað kannabis eða hass en evrópsk ungmenni að meðaltali. Við tökum varla kúvendingu í þessum málum án þess að vita hvaða áhrif það hefur."

Upplýsingarnar eru grundvallaratriði

Hún segir umræðuna afar mikilvæga og telur lykilatriði að nálgast hana frá mörgum sjónarhornum. „Umræðan er ekki svarthvít. Staðan er sú að við þurfum ekki að velja eitt eða annað. Það er hægt að finna hvað hefur virkað best innan þessara ólíku stefna sem hér hafa verið ræddar. Og þegar kemur að þessum breytingum þá snýst þetta ekki um tvo andstæða póla um að afglæpavæða eða ekki, heldur að skoða í samhengi og finna lausnirnar sem eru að virka."