Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Árangur íslenska módelsins kannaður í Litháen

17.9.2020

Þessar niðurstöður hafa vakið mikla athygli í þeim fjölmörgu löndum sem eru að nýta sér aðferðafræði íslenska módelsins til að bæta líf ungs fólks.

Frá því að þrjár stærstu borgir í Litháen tóku upp hið svokallaða íslenska módel árið 2006 hefur neysla ungmenna þar í 10. bekk á nikótíni, áfengi, kannabis og amfetamíni minnkað línulega. 

Á sama tímabili hafa mælingar á lykilforvarnarþáttum breyst til batnaðar þar sem ungmennin eru til dæmis líklegri nú en áður til að stunda íþróttir og segja foreldra sína vita frekar hvar og með hverjum þau eru á kvöldin.

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir er deildarforseti sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Hún er einn af höfundum vísindagreinar um viðfangsefnið sem birtist á dögunum í vísindaritinu  European Journal of Public Health sem gefið er út af Oxford University Press. Hún hefur unnið við rannsóknir á þessu sviði frá árinu 1999 þegar þessi forvarnarvinna hófst hér á landi.

Eru önnur lönd að ná jafn góðum árangri og við?

„Við vitum að á sl. 20 árum höfum við náð gríðarlegum árangri á Íslandi í því að fækka í hópi grunnskólanema sem reykja, drekka og nota vímuefni. Þessi árangur hefur byggst á öflugu samstarfi íslenskra vísindamanna, sveitarfélaga, ráðuneyta, skóla, foreldra og fólks á vettvangi þar sem ákvarðanir eru teknar á grundvelli áreiðanlegra upplýsinga og rannsókna. 

Starfið felur meðal annars í sér að bæta félagslegt umhverfi ungs fólks á þann hátt að efla þætti sem minnka líkur á vímuefnaneyslu s.s. auka þátttöku í skipulögðu íþrótta-, félags- og tómstundastarfi, efla traust samskipti og eftirlit foreldra en minnka áhættuþætti s.s. langan útivistartíma og eftirlitslaus partý. 

Þessi nálgun hefur hlotið mikla athygli erlendis og hefur hún verið innleidd í fjölda borga á meginlandi Evrópu og í Mið- og Suður- Ameríku undir yfirskriftinni Planet Youth. Árangur starfsins hefur hins vegar hingað til einungis verið rannsakaður markvisst á Íslandi og því mjög mikilvægt að sjá hvort árangurinn í öðrum löndum sé sambærilegur því sem við höfum séð hér á landi.“

Bryndís heldur erindi á ráðstefnu

Bryndís Björk kynnir árangur Planet Youth verkefnisins.

Rannsóknin byggir á gögnum úr síendurteknum, samsvarandi spurningalistum sem lagðir voru fyrir rúmlega 30.000 tíundu bekkinga í borgunum Kaunas, Klaipeda og Vilnius - sem eru þrjár stærstu borgirnar í Litháen - á árunum 2006-2019. 

„Í stuttu máli benda niðurstöðurnar til þess að þróunin, eftir innleiðingu á íslenska módelinu, sé svipuð í Litháen og á Íslandi þar sem línuleg fækkun hefur orðið í hópi ungmenna sem nota vímuefni á sama tíma aukning hefur orðið í hópi þeirra sem stunda íþróttir og sem telja foreldra sína veita þeim félagslegt eftirlit og aðhald.“

Íslenska módelið byggist á áralöngum rannsóknum Rannsókna og greininga sem er staðsett við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. „Þessar niðurstöður hafa vakið mikla athygli í þeim fjölmörgu löndum sem eru að nýta sér aðferðafræði íslenska módelsins til að bæta líf ungs fólks.“