Fréttir eftir árum


Fréttir

Auðna-Tæknitorg stofnað í samstarfi háskóla, rannsóknastofnana og ráðuneyta

10.12.2018

Til að hagnýta rannsóknir er nauðsynlegt að hafa vísindastarf aðgengilegt og sýnilegt fjárfestum og atvinnulífi hér á landi og erlendis, annars er hætt við því að tækifæri til verðmæta- og nýsköpunar fari forgörðum. Erlendar sem innlendar úttektir hafa bent á skort á faglegri tækniyfirfærslu sem einn veikasta hlekkinn í nýsköpunarumhverfinu hér á landi.

Til að mæta þessari þörf hefur Auðna-Tæknitorg verið sett á laggirnar í samstarfi allra háskóla landsins og helstu rannsóknastofnana, atvinnu-og nýsköpunarráðuneytis og mennta-og menningarmálaráðuneytis. Þann 6. desember síðastliðinn var stofnun Auðnu-Tæknitorgs fagnað í Sjávarklasanum á Granda. Það var ráðherra nýsköpunar, iðnaðar og ferðamála, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, sem stofnaði tæknitorgið formlega.

Háskólinn í Reykjavík hefur það að markmiði að styðja við öflugt rannsóknastarf sem unnið er innan háskólans og að hagnýta þær rannsóknir fyrir samfélagið, til dæmis með stofnun nýrra fyrirtækja. Starfsemi Auðnu - tæknitorgs fellur því vel að stefnu háskólans.

Samkvæmt Einari Mäntylä, framkvæmdastjóra undirbúningsfélags Auðnu-Tæknitorgs segir tækniveituna sennilega vera einstaka í heiminum því þó slík þjónusta sé í boði við flesta háskóla og rannsóknastofnanir erlendis, þá þekkist hvergi að ein tækniveita sinni heilu landi eins og markmiðið er með Auðnu-Tæknitorgi.

Hópur fólks stendur með borðaFrá stofnuna Auðnu-Tæknitorgs. Meðal þeirra sem tóku þátt í athöfninni voru rektorar Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands.