Fréttir eftir árum


Fréttir

BI sigraði Nordic Case Challenge keppnina í HR

Norræn sýn á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð

23.3.2022

Keppnin The Nordic Case Challenge var haldin í Háskólanum í Reykjavík dagana 16-19. mars. Þetta var í fyrsta sinn sem slík keppni er haldin og þar spreyttu sig alls níu lið grunnnámsnema frá jafn mörgum norrænum háskólum. Úrslit urðu þau að lið BI Norwegian Business School sigraði keppnina þegar liðið leysti verkefni sem unnið var í samstarfi við Marel. 

Keppnin var jöfn og tók það dómnefndina þó nokkurn tíma að komast að niðurstöðu. Í öðru sæti endaði lið Lund University og í þriðja sæti lið Tampere University of Applied Science.

Nordic-Chase-Challenge-sigurvegarar-F1igg3Gg

Sigurvegararnir Martin Overbo, Petter Moger og Martin Brandsrud frá BI Norwegian Business School.

„Þetta tókst frábærlega en boltarnir voru nokkuð margir á lofti þar sem keppnin hafði ekki verið haldin áður,“ segir Ásgeir Jónsson, forstöðumaður grunnnáms í viðskiptadeild og skipuleggjandi keppninnar. „En með hjálp yndislegs samstarfsfólks og sjálfboðavinnu dómara kom þetta allt heim og saman og allir skemmtu sér konunglega í leiðinni.“

Forsaga keppninnar er sú að aðilar frá sex háskólum hafi viljað setja á laggirnar norræna case-keppni með áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð. Í þeim hópi eru ásamt HR; CBS í Danmörku, BI og Agder í Noregi, Lund í Svíþjóð og Tampere í Finnlandi. Síðan er stefnan að bjóða háskólum að taka þátt á hverju ári og að þessu sinni voru það Satakunta í Finnlandi, Aarhus frá Danmörku og Bifröst sem boðin var þátttaka.

Nordic-Chase-Challenge-domnefndNLdWA05Q

Dómnefndin í úrslitum. Efri röð: Bjarni Herrera (KPMG/HR), Stefan Wendt (Bifröst), Rúnar Skúli Magnússon. Neðri röð: Benedikt Arason (Marel), Jón Þór Sturluson (HR), Heiðrún Ingrid Hlíðberg (Marel/HR) og Hólmfríður Sveinsdóttir (Mergur Ráðgjöf).

Fyrirkomulag keppninnar er á þann veg að í hverjum skóla er haldin forkeppni þar sem öll lið leysa sama verkefnið. Að þessu sinni var verkefnið unnið með netsölurisanum Boozt.com. „Boozt sendi tvo fulltrúa hingað sem hlýddu á vinningsliðin kynna sýna lausn.“ Liðunum níu var skipt upp í tvo riðla og svo fór að Tampere vann í A-riðli og Aarhus í B-riðli. „Verkefnið í úrslitum var svo unnið með Marel og var mjög krefjandi. Nemendur höfðu 15 tíma til að leysa verkefnið. Það er magnað að sjá hversu öflug þau eru og hversu glæsilegu framlagi þau skila á svo stuttum tíma.“

Nordic-Case-Challenge-hopurinn-aB1ghILg

Allur hópurinn samankominn en fjórir nemendur og einn ráðgjafi tilheyra hverju liði.

Keppnin verður haldin aftur á næsta ári en þá fer lokakeppnin fram hjá Lund og CBS.