Fréttir eftir árum


Fréttir

Birna og Þröstur hljóta styrki úr Rannsóknarsjóði VÍ

21.9.2015

HR-ingar hljóta styrki Viðskiptaráðs Íslands

Styrkþegar Rannsóknasjóðs VÍ: (frá vinstri) Birna Dröfn, Þröstur Olaf, Berta Lucille Faber frá Alþjóðaskólanum og Gylfi Ólafsson.

Þröstur Olaf Sigurjónsson, dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, og Birna Dröfn Birgisdóttir, doktorsnemi við deildina, hlutu á dögunum styrki frá Viðskiptaráði Íslands. Um er að ræða fyrstu úthlutun úr Rannsóknasjóði VÍ. Styrkjunum er ætlað að efla rannsóknir og nýsköpun sem nýtast íslensku menntakerfi og atvinnulífi. Að mati valnefndar falla þau verkefni sem urðu fyrir valinu vel að markmiði sjóðsins auk þess sem gæði umsókna þóttu framúrskarandi.

Þresti var veittur styrkur að upphæð 1.500.000 kr. til rannsókna á stjórnarháttum fyrirtækja. Rannsóknir hans miða að því að skoða valferli, fjölbreytileika stjórna og samsetningu þeirra hérlendis. Niðurstöðurnar munu bæta þekkingu innan háskólasamfélagsins á sviði góðra stjórnarhátta. Auk þess felst í þeim mögulegt tækifæri til að bæta fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum í íslenskum fyrirtækjum.

Birna Dröfn hlaut styrk að upphæð 1.000.000 kr. til rannsóknar á þáttum sem ýtt geta undir sköpunargleði starfsfólks, en sköpunargleði er talin mikilvægur þáttur fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja. Markmið rannsóknarverkefnisins er að brúa bil þar sem samband þjónandi forystu, starfsumhverfis og sköpunargleði hefur ekki áður verið rannsakað með þessum hætti.

Rannsóknasjóður Viðskiptaráðs Íslands er nýr sjóður sem veitir árlega styrki til einstaklinga vegna rannsókna og nýsköpunar tengdum framþróun menntunar og eflingu íslensks atvinnulífs. Alls var 6,5 milljónum króna úthlutað til fjögurra ólíkra verkefna. 

Auk þeirra Þrastar og Birnu hlutu Alþjóðaskólinn og Gylfi Ólafsson styrki úr sjóðnum.