Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Blandað lið MH, MR og MS vann Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna

12.3.2020

Í Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna keppa þriggja til fjögurra manna lið í að stýra fyrirtæki í ákveðinn tíma með sem bestum árangri. Mikilvægur hluti af starfi stjórnenda er að taka ákvarðanir, bæði um atriði í starfsemi frá degi til dags og stærri ákvarðanir sem hafa áhrif á starfsemina, og samfélagið allt, til frambúðar.

Keppnin er haldin á vegum viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og er markmiðið að vekja áhuga ungs fólks á góðri og ábyrgri stjórnun. Keppnin er byggð á Edumundo-herminum sem er vel þekktur og var keppnin í ár fólgin í því að stýra fyrirtæki yfir nokkurra ára tímabil sem var í útflutningi á reiðhjólum og verkefnið var að koma þeim inn á fleiri markaði.

16 lið tóku þátt

Í ár tóku 16 lið þátt frá hinum ýmsu framhaldsskólum og þar af var eitt lið frá MA tengt fjarfundarbúnaði. Þrjú lið samanstóðu af nemendum úr fleiri en einum skóla en það gerir keppnina frábrugðna öðrum keppnum á milli framhaldsskóla og gaman að sjá hvað gott samstarf á milli nemenda í framhalsskólum er mikilvægt. Stemningin var mjög góð á meðan keppninni stóð og keppnisskapið mikið hjá liðunum.

Fyrirlesarar frá HR og Húrra

Iðunn Getz Jóhannsdóttir, formaður Markaðsráðs, nemendafélags nemenda í viðskiptafræði og hagfræði við HR, hélt stutt erindi um hvernig það er að vera nemandi við HR og annar stofnandi HÚRRA Reykjavík, Sindri Snær Jensson spjallaði við keppendur um sína reynslu að frumkvöðlastarfi og mikilvæg atriði er snúa að fyrstu skrefum í fyrirtækjarekstri.

Vinningshafar 

Viðskiptadeild HR óskar vinningshöfum hjartanlega til hamingju með árangurinn og um leið þakkar öllum keppendum fyrir skemmtilega og spennandi keppni. Hér má sjá liðin sem hlutu verðlaun ásamt Hrefnu S. Briem, forstöðumanni grunnnáms við viðskiptadeild, (lengst til vinstri) og stjórnanda keppninnar, Gijs van Duijn frá Edumundo (lengst til hægri).

_00A9641

1. sæti

Í fyrsta sæti var liðið Pénz III, blandað lið Menntaskólans við Hamrahlíð, Menntaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Sund, en liðið hlaut peningaverðlaun frá Menntasjóði Viðskiptaráðs Íslands. Liðið var skipað þeim Björgvini Viðari Þórðarssyni úr MR, Hauki Methúsalem Óskarssyni úr MH, Magnúsi Baldvini Friðrikssyni úr MS, og Oddi Stefánssyni úr MR.

_00A9659

2. sæti

Í öðru sæti var lið frá Menntaskólanum að Laugarvatni en liðið hét KISS. Liðið skipaði þeim Kristjáni Bjarni R. Indriðassyni, Sindra Bernholt, Ingu Rós Sveinsdóttur og Sigríði Maríu Jónsdóttur. Liðið hlaut að verðlaunum gjafakort í Reykjavík Escape.

_00A9627

3. sæti

Lið Menntaskólans við Hamrahlíð var í þriðja sæti Stjórnunarkeppninnar. Liðið hét Verzlunarráð NFMH og var skipað þeim Ásrúnu Tryggvadóttur, Elínborgu Unu Einarsdóttur, Kristínu Trang og Jökli Inga Þorvaldssyni. Liðið hlaut að verðlaunum gjafakort í Fly Over Iceland.

Að auki hlutu öll liðin í efstu þremur sætunum gjafabréf frá Keiluhöllinni, YUZU, Ísbúð Huppu, Joe & The Juice og bók frá HÚRRA Reykjavík.