Fréttir eftir árum


Fréttir

Brautskráning frumgreinadeildar

18.1.2016

Brautskraning_frumgreina_jan20165 HR brautskráði síðastliðinn föstudag 32 nemendur með frumgreinapróf frá frumgreinadeild háskólans. Athöfnin var haldin í Sólinni í húsakynnum Háskólans í Reykjavík. 

Við brautskráninguna hlaut Kolbeinn Páll Erlingsson viðurkenningu Samtaka iðnaðarins fyrir bestan árangur í frumgreinanámi. Hann hlaut jafnframt viðurkenningar Háskólans í Reykjavík fyrir ágætan árangur í raungreinum, dönsku, ensku, þýsku, hugmyndasögu, forritun og stærðfræði. Davíð Haukur Þorgilsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan árangur í íslensku, dönsku og efnafræði. Garðar Sigurðsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan árangur í forritun og Víðir Sveinsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan árangur í efnafræði.

Frumgreinanám við HR veitir fólki með iðnmenntun eða aðra menntun en stúdentspróf og reynslu úr atvinnulífinu, undirbúning fyrir háskólanám. Flestir þeirra sem útskrifuðust eru með starfsreynslu úr verslunar- og þjónustugeiranum, margir hafa lokið sveinsprófi í iðngrein og enn aðrir hafa sinnt verkamannastörfum, en þátttaka á vinnumarkaði er eitt skilyrða þess að komast í námið. Stærstur hluti brautskráðra nemenda hyggst halda áfram námi við akademískar deildir HR. 

Þetta er í 74. sinn sem nemendur brautskrást úr frumgreinanámi við HR, sem er það elsta sinnar tegundar hér á landi. Frá því að það var stofnsett í Tækniskóla Íslands árið 1964 hafa 2008 nemendur útskrifast. Undanfarin 12 ár hafa flestir nemendur tekið námið á þremur önnum en nú hefur það verið stytt í eitt ár og skipulagi þess breytt þannig að nemendur velja strax þann undirbúning sem hentar fyrirhuguðu námi á háskólastigi. Við skipulags-breytingarnar var tekið mið af aðgangsviðmiðum akademískra deilda Háskólans í Reykjavík og aðalnámskrá framhaldsskólanna. 

Við athöfnina flutti Eyjólfur Árni Rafnsson, doktor í byggingarverkfræði, ávarp fyrir hönd eldri nemenda. Af hálfu útskriftarnema talaði Selma Margrét Karlsdóttir.

Frekari upplýsingar um frumgreinanám er að finna á vef frumgreinadeildar 

Sjá myndir frá athöfninni á facebook-síðu HR