Fréttir eftir árum


Fréttir

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir verður prófessor við sálfræðideild

8.4.2021

Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir hefur fengið framgang í stöðu prófessors við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Bryndís hefur starfað við HR síðan 2005 og er nú deildarforseti sálfræðideildar. Áður var hún forstöðumaður grunnnáms í sálfræði og íþróttafræði og leiddi uppbyggingu meistaranáms í klínískri sálfræði, hagnýtri atferlisgreiningu og doktorsnáms í sálfræði við háskólann.

Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir

Bryndís hefur birt fjölda vísindagreina í virtum alþjóðlegum vísindaritum, skrifað bókakafla og rannsóknarskýrslur fyrir ráðuneyti og sveitarfélög og haldið fjölmörg erindi á innlendum og erlendum vísindaráðstefnum. Rannsóknir Bryndísar hafa að mestu leyti beinst að heilsu og líðan barna og ungmenna og afleiðingum ofbeldis en hún er meðal fremstu rannsakenda á því sviði. Doktorsritgerð hennar fjallaði um kynferðislegt ofbeldi sem orsök streitu í lífi unglinga. Hún hefur hlotið opinbera styrki til þess að rannsaka þennan málaflokk og verið í rannsóknarteymum bæði hérlendis og erlendis á þessum vettvangi. Hún hefur mikla reynslu í kennslu á háskólastigi, er leiðbeinandi doktorsnema í sálfræði við sálfræðideild HR og hefur leiðbeint fjölda meistaranema og BSc nema í rannsóknarverkefnum.

Bryndís Björk hefur verið í lykilhlutverki við uppbyggingu sálfræðideildar HR og haft margvísleg áhrif á stefnu og ákvarðanatöku hins opinbera gegnum verkefni og nefndarstörf fyrir sveitarfélög, ráðuneyti dómsmála, menntamála, félagsmála, heilbrigðis og viðskipta, Landlæknisembættið og Rauða kross Íslands. Hún situr í stjórn Heilsustofnunarinnar í Hveragerði, Bataskóla Íslands og í fjölskylduráði Garðabæjar og var um tíma framkvæmdarstjóri Rannsóknar og greiningar. Bryndís lauk doktorsnámi í sálfræði við King's College í London árið 2011, MA prófi í félagsfræði við Háskóla Íslands árið 2003 og BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1999.

Hér má lesa nánar um störf og rannsóknir Bryndísar.