Fréttir eftir árum


Fréttir

Námskeiðinu Nýsköpun og stofnun fyrirtækja formlega lokið

20.5.2015

Nýsköpun og stofnun fyrirtækja

Ragnar Kormáksson hjá Klak-Innovit tekur sjálfsmynd með öllum hópunum. Neðst til vinstri má sjá Hrefnu Sigríði Briem, forstöðumann BSc-náms í viðskiptafræði við HR, sem hefur umsjón með námskeiðinu.

Námskeiðinu Nýsköpun og stofnun fyrirtækja lauk formlega síðastliðinn föstudag, þó að eflaust verði margar hugmyndir úr námskeiðinu þróaðar áfram næstu misseri. Við formlega athöfn hlutu fimm hópar viðurkenningar fyrir hugmyndir sínar, en alls unnu nemendur að yfir 60 hugmyndum í námskeiðinu sem margar hverjar hafa hlotið mikla athygli í fjölmiðlum undanfarið. Má þar nefna gæludýrapössun í gegnum netið, sjampó úr kúahlandi, sjálfsala sem blandar „boost“, vatnsrennibraut í miðbænum og leigumiðlun á netinu fyrir stúdenta. Lesa má um verðlaunahugmyndirnar hér fyrir neðan.

Um námskeiðið

Nemendur í grunnnámi í lagadeild, tækni- og verkfræðideild og viðskiptadeild sitja á fyrsta ári námskeiðið, sem tekur þrjár vikur, og verða að finna viðskiptahugmynd og gera viðskiptaáætlun. Nemendur kynnast því nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, gerð viðskiptaáætlunar og þverfaglegri samvinnu strax í upphafi námsins.

Námskeiðið veitir nemendum þekkingu sem nýtist þegar út í atvinnulífið er komið og hæfni sem er til þess fallin að skapa störf í samfélaginu um leið og stofnað er til rekstrar. Þeir kynna verkefnið reglulega með svokölluðum lyftukynningum þar sem ein mínúta gefst til að þess að „selja“ hugmyndina hugsanlegum fjárfestum. Einnig gera teymin frumeintak af nýju vörunni til að fá enn meiri reynslu af því að gera hugmynd að veruleika. Nemendur þurfa ennfremur að sýna fram á að hugmyndin skili hagnaði.

Neyðarblys með GPS-tæki

SmartFlare er ný og endurbætt útgáfa af hinum hefðbundnu neyðarblysum. Í stað blyssins sem fer upp í loftið er skotið upp LED-ljósi og GPS-staðsetningarbúnaði. Staðsetningarbúnaðurinn gerir leitina að þeim sem skaut úr neyðarbyssunni hraðvirka og nákvæma. Hægt er að miða út hnitin og finna hvaðan neyðarboð koma og hefja strax björgunarleiðangur á þann stað. Kosturinn við LED-ljós fram yfir blysið, sem hingað til hefur verið notað, er að díóðan lýsir jafnvel eftir lendingu í vatni og berst með sama straumi og sá sem skaut því upp og sést frá lofti. 

Í hópnum eru: Jóhanna Karsdóttir laganemi, Karl Daníel Magnússon viðskiptafræðinemi, Pétur Elvar Sigurðsson tölvunarfræðinemi, Sandra Ósk Magnúsdóttir rekstrarverkfræðinemi, Sigmar Darri Unnsteinsson heilbrigðisverkfræðinemi.

Nótnaland

Hugmyndin snýst um að vekja áhuga barna á tónlist og út­skýra fyr­ir þeim nót­ur og til­gang þeirra. Nótur eru persónugerðar og persónuleiki hverrar nótu endurspeglar eiginleika hennar. Samfélag samanstendur af ólíkum einstaklingum sem mynda eina heild líkt og nótur, sem einnig eru ólíkar og mynda eina heild og verða að vinna saman svo úr því verði lag. Hugmyndin hefur marga útfærslumöguleika og er einstök að því leyti að hún er mjög skalanleg á alþjóðamarkaði og getur tengt saman foreldra og börn allstaðar í heiminum, því nótur er alþjóðlegt tungumál tónlistarinnar.

Í hópnum eru: Arnþrúður Dís Guðmunds­dótt­ir sálfræðinemi, Hild­ur Eva Ómars­dótt­ir, rekstrarverkfræðinemi, Mar­grét Birgitta Davíðsdótt­ir laganemi, Helena Rós Gil­bert, hátækniverkfræðinemi, Júlí­ana M. Sig­ur­geirs­dótt­ir laganemi, Hrefna Rós Hlyns­dótt­ir, viðskiptafræðinemi.

Bug-view: aukahlutur fyrir myndavélar

Bug-view er búnaður til að ná ,,low-angle“ sjónarhorni á myndavélum. Bug-view er festur á þrífót með hraðfestingu sem fyrir er á þrífótshaus. Hún gerir ljósmyndurum kleift að taka myndir frá sjónarhorni sem er mjög nálægt jörðu án þess að myndavélin snerti yfirborðið en þá geta óhreinindi, vatn eða aðrir þættir ollið skemmdum á myndavélinni.

Í hópnum eru nemendur í fjarnámi: Elín Linnea Ólafsdóttir, viðskiptafræðinemi, Gná Guðjónsdóttir viðskiptafræðinemi, Hafþór Magnússon, rekstrariðnfræðinemi, Sverrir Þór Guðmundsson, rekstrariðnfræðinemi, Valgerður Fjóla Einarsdóttir, viðskiptafræðinemi.

Lumos

Hugmyndin er hönnun minjagrips sem samanstendur af ljósabúnaði sem komið er fyrir í íslenskum hraunmola úr t.d. Eyjafjallajökli. Ljósabúnaðurinn varpar geislum í gegnum glerskífu sem snýst en við það verður til óreglulegt ljósbrot og því varpast lifandi mynd af norðurljósum á nærliggjandi vegg. Það gerir ferðamönnum kleift að taka upplifun með sér heim eftir ferðalagið. Gripurinn á að geta notið sín á heimilum hvort sem kveikt er á ljósabúnaðinum eða ekki. 

Í hópnum eru: Dagmar Ólafsdóttir, sálfræðinemi, Garðar I. Reynisson, hátækniverkfræðinemi, Guðjón I. Ólafsson rekstrarverkfræðinemi, Guðrún K. Guðmannsdóttir, viðskiptafræðinemi, Ingibjörg Tómasdóttir heilbrigðisverkfræðinemi og Ívar Örn Hauksson, laganemi.

Fjölbreyttar fjölskyldur

Verðlaun vegna verkefnis þar sem samfélagsleg ábyrgð er í forgrunni hlaut hugmynd að röð barnabóka sem kennir börnum um kynhneigð og ber heitið ,,Fjölbreyttar fjölskyldur”. Með barnabókakeðjunni skal stuðlað að aukinni þekkingu barna um hin ýmsu fjölskylduform og þeim kennt að öll fjölskylduform eru jafngild og sjálfsögð um leið og fagnað er fjölbreytileikanum. Börn sem tilheyra fjölbreyttum fjölskyldum eða fjölskyldum sem þykja frávik frá hinu staðlaða fjölskylduformi, verða því miður oft fyrir einelti og þykir því brýnt að sporna gegn slíku einelti. Fyrsta bók barnabókakeðjunnar ber nafnið ,,Tómas og Freyja“ og er ætluð börnum á aldrinum 4-6 ára.

Í hópn­um eru: Birgitta Saga Jóns­dótt­ir, laga­nemi. Birna Hrund Hólm­ars­dótt­ir, rekstr­ar­verk­fræðinemi. Ástrún Svala Óskars­dótt­ir, rekstr­ar­verk­fræðinemi. Axel Birg­is­son, viðskipta­fræðinemi. Bessí Þóra Jóns­dótt­ir, sál­fræðinemi og  Agnes Hrund Guðbjarts­dótt­ir, viðskipta­fræðinemi.