Fréttir eftir árum


Fréttir

Starfsmöguleikar útskrifaðra byggingafræðinga mjög fjölbreyttir

Byggingafræði dýnamískt fag er teygir anga sína víða

17.3.2022

Háskólinn í Reykjavík er eini háskólinn hér á landi sem kennir byggingafræði en útskrifaðir nemendur öðlast BSc-gráðu í byggingafræði og löggilt starfsheiti sem byggingafræðingur.

Það er ýmislegt skemmtilegt og áhugavert við námið sem margt fólk áttar sig vafalaust ekki á. Nemendur gleyma sér í gleðinni við að leysa annars mjög erfið verkefni vegna þess að þau eru það raunveruleg og fjölbreytt. Svo er byggingabransinn, þrátt fyrir oft á tíðum mikinn barlóm og neikvæðar fréttir, dýnamískur og mikið um að vera í kringum hann, 

segir Viggó Magnússon, byggingafræðingur og námsbrautarstjóri BSc-náms í byggingafræði við HR.

Stafrænn byggingariðnaður – áskoranir og ávinningur

Áherslur námsins ganga helst út á að mennta verðandi byggingafræðinga í gegnum svokallað PBL (Project Based Learning) eða verkefnamiðað nám. Þar eru verkefnin sem næst raunveruleikanum og eru miðpunktur hvers námskeiðs fyrir sig. Svo er fræðilegi þátturinn inni í verkefninu í formi hliðarnámskeiða þegar þörf er á og passar gagnvart verkefnisvinnslunni.

Sú nálgun að gera flest verkefni eins raunsönn og kostur er skilar vel undirbúnum nemendum út í atvinnulífið og eru starfsmöguleikar útskrifaðra byggingafræðinga ansi miklir. Nemendur hafa verið að dreifast vel út í byggingarbransann og í hliðargreinar tengdar honum,“

segir Viggó.

Háskólinn í Reykjavík tekur þátt í sýningunni Verk og Vit dagana 24-27 mars þar sem kynnt verður nám innan iðn- og tæknifræðideildar HR auk náms í Háskólagrunni HR.