Fréttir eftir árum


Fréttir

Cornell háskóli og HR stefna á samstarf á sviði sjálfbærni

20.9.2021

Fulltrúar Háskólans í Reykjavík og Cornell háskóla í Bandaríkjunum hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf í menntamálum og rannsóknum sem snúa að sjálfbærni, með áherslu á sjálfbæra orku. Yfirlýsingin byggir á rammasamningi Cornell við GRP Ísland um víðtækt samstarf á sviði sjálfbærni, orku, nýsköpunar og loftslagsmála sem starfað hefur verið eftir síðan 2016, og var endurnýjaður við sama tækifæri.

ichal C. Moore gestaprófessor frá Cornell; Ragnhildur Helgadóttir rektor og Hlynur Stefánsson, dósent við verkfræðideild og forstöðumaður rannsóknarseturs HR um sjálfbæra þróun (SIF)Ragnhildur Helgadóttir rektor; Michal C. Moore gestaprófessor frá Cornell, og Hlynur Stefánsson, dósent við verkfræðideild og forstöðumaður rannsóknarseturs HR um sjálfbæra þróun (SIF). Á skjá eru Joel M. Malina, framkvæmdastjóri samskipta Cornell háskóla og Lynden Archer, forseti verkfræðideildar, sem tóku þátt í athöfninni á Zoom). 

Samkvæmt viljayfirlýsingunni stefna HR og Cornell á að kennarar, vísindafólk og nemendur við háskólana hafi kost á að stunda kennslu, rannsóknir og nám við báða háskólana, sem gestakennarar, gestaprófessorar og skiptinemar og stefnt er að auknu samstarfi um fjölbreytt rannsóknaverkefni sem tengjast sjálfbærni, m.a. í gegnum Rannsóknarsetur HR um sjálfbæra þróun (SIF). Dr. Michal C. Moore gestaprófessor frá Cornell kennir við HR nú á haustönn.

Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR sagði við undirritun viljayfirlýsingarinnar að áhersla á sjálfbærni sé greypt í stefnu háskólans þar sem segi að háskólinn hafi það hlutverk að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi. 

Í vísinda- og tæknistefnu segir einnig að á Íslandi styrki tækninýjungar stoðir samfélags sem byggist á grunngildum lýðræðis, jafnréttis og sjálfbærni. Við höfum því heitið því, bæði sem háskóli og sem samfélag að vinna að aukinni sjálfbærni í breiðum skilningi þess orðs og við erum því afskaplega ánægð með þetta jákvæða skref í átt að auknu samstafi við Cornell háskóla sem einnig hefur markað sér mjög ákveðna stefnu til aukinnar sjálfbærni.


_DSF4648(Á mynd frá vinstri): Ríkharður Ibsen, framkvæmdastjóri GRP ehf, Michal C. Moore gestaprófessor frá Cornell, Ragnhildur Helgadóttir rektor, Ari K. Jónsson fráfarandi rektor og Hlynur Stefánsson, dósent við verkfræðideild og forstöðumaður rannsóknarseturs HR um sjálfbæra þróun (SIF). Á skjá eru Joel M. Malina, framkvæmdastjóri samskipta Cornell háskóla og Lynden Archer, forseti verkfræðideildar, sem tóku þátt í  athöfninni á Zoom

Háskólinn í Reykjavík, GRP ehf., Íslenski Orkuklasinn, ásamt íslenskum stjórnvöldum hafa undanfarin ár átt í samstarfi við Cornell háskóla um þekkingaryfirfærslu í orkumálum og sjálfbærni, auk samstarfs í vísindarannsóknum og menntamálum. Markmiðið er að samstarfið leiði af sér aukin tækifæri í nýsköpun, grænum orkulausnum og verðmætaaukningu fyrir íslenskt samfélag. Fjöldi sendinefnda frá Cornell hefur sótt landið heim og unnið að verkefnum og greint tækifæri í grænni tækni á Íslandi, bæði í orkugeiranum og í sjávarútvegi. Þá hefur Cornell, á grundvelli þess samstarfs og í samstarfi við alþjóðlega rannsóknarsjóði, hafið vinnu við úttekt á sjálfbærni Íslands í ákveðnum geirum, svo sem í orkuvinnslu og sjávarútvegi. Til stendur að umbreyta orkukerfum Cornell háskóla í Íþöku í New York að hluta til að íslenskri fyrirmynd, með því að nýta jarðvarma til að hita upp háskólasvæðið í stað gass og stefnt er að því að stofna miðstöð sjálfbærni á Íslandi í samstarfi við Cornell og tengda aðila.

Nánari upplýsingar um samstarfið má finna á nýjum vef verkefnisins .