Fréttir eftir árum


Fréttir

Auka verður jafnrétti fólks af erlendu bergi brotnu hérlendis

Paola Cardenas, doktorsnemi við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík og stundakennari, nýr formaður innflytjendaráðs

22.9.2022

Paola Car­den­as, klínískur sál­fræðing­ur, fjöl­skyldu­fræðing­ur og doktorsnemi í sál­fræði við Há­skól­ann í Reykja­vík, er nýr formaður inn­flytj­endaráðs. Hún er skipuð af Guðmundi Inga Guðbrands­syni, fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra. Paola hefur á undanförnum þremur árum rannsakað félagslegar aðstæður og líðan flóttabarna- og ungmenna á Íslandi.

Á mínum starfsferli hef ég alltaf starfað með börnum og starfa nú í hlutastarfi í Barnahúsi á meðan ég lýk doktorsnámi. Ég byrjaði strax sem unglingur að plana líf mitt og var aðeins um 17 ára þegar ég ákvað að verða barna sálfræðingur. Ég fæddist í Venesúela og ólst upp þar og í Kólumbíu en eyddi öllum mínum sumrum í Chile þaðan sem móðir mín er. Ég hef nú búið á Íslandi í rúm 20 ár en uppphafið var það að ég kynntist íslenskum strák sem skiptinemi í Bandaríkjunum og kom eftir það til Íslands og bjó í tæp tvö ár. Síðan fór ég í grunnnám í sálfræði til Boston en flutti svo hingað aftur árið 2002 og hef búið hér síðan. Ég kann mjög vel við mig á Íslandi og finnst Íslendingar í raun svolítið suðrænir í sér, svona léttir og skemmtilegir.

Paola-Cardenas

Paola leggur áherslu á að samfélagið þurfi að vera opnara og auka þurfi jafnrétti fólks af erlendu bergi brotnu hérlendis

Sem formaður innflytjendaráðs segir hún það vera ákveðinn kost að hafa alist upp í öðru umhverfi og skólakerfi. Það víkki í raun sjóndeildarhringinn í mörgu því sem hún taki sér fyrir hendur. Þá nýtist vel að vera barna sálfræðingur enda séu börn á flótta stór hópur sem hlúa þurfi sérstaklega vel að og einnig muni doktorsrannsókn hennar koma þar að góðum notum. Aðal markmið doktorsrannsóknarinnar er að kanna áhrif sálfélagslegra þátta, t.d. félagslegs stuðnings og aðlögunar, á geðheilsu barna og ungmenna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Paola hlaut doktorsnemastyrk frá Rannsóknarsjóði Rannís og hefur verið stundakennari við Háskólann í Reykjavík meðfram námi.

Með doktorsnáminu í HR hef ég öðlast sérfræðiþekkingu á mínu sviði og öðlast meira sjálfstraust til tala um mikilvæg málefni. Einnig hefur námið hjálpað mér að skoða málin sem ég er að fást við frá vísindalegu sjónarhorni sem auðveldar að ná farsælli niðurstöðu.

Innflytjendamál eru ofarlega á baugi í íslensku þjóðfélagi í dag og vill verða mikið hitamál þar sem fólk skipar sér í andstæðar fylkingar. Paola leggur áherslu á að samfélagið þurfi að vera opnara og auka þurfi jafnrétti fólks af erlendu bergi brotnu hérlendis.

Við þurfum að hafa í huga að hlúa vel að þeim sem eru þegar að koma sér fyrir í samfélaginu. Lykilllin að því að aðlagast er tungumálið og ég er sammála því að mikilvægt er að viðhalda íslenskunni en um leið verður að vera hægt að gera fólki auðveldara að nálgast íslenskukennslu og eins að njóta stuðnings við að nota málið.

 

P1090397-1-

Paola kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar á sérstöku málþingi sálfræðideildar um stríðið í Úkraínu og stöðu flóttabarna og ungmenna á Íslandi. 

Hlutverk innflytjendaráðs er meðal annars að vera ráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málefnum innflytjenda og hafa eftirlit með framkvæmd hennar, stuðla að samhæfingu og samráði milli ráðuneyta, sveitarfélaga og innan stjórnsýslunnar og beita sér fyrir opnum umræðum um málefni innflytjenda.