Fréttir eftir árum


Fréttir

Dósent í heilbrigðisverkfræði er nýr forseti Skandinavísku lífstoðefnissamtakanna

21.10.2016

Dr. Ólafur E. Sigurjónsson, dósent við Háskólann í Reykjavík, var nýverið kjörinn forseti Skandinavísku lífstoðefnissamtakanna (Scandinavian Society for Biomaterials). Ólafur stundar kennslu og rannsóknir í heilbrigðisverkfræði við tækni- og verkfræðideild HR.

Ólafur Eysteinn SigurjónssonÓlafur Eysteinn Sigurjónsson

Viðfangsefni rannsókna Ólafs eru meðal annars lífstoðefni. Fræðasviðið er nýlegt og því ekki á allra vitorði hvað lífstoðefni eru. „Þetta eru efni sem er hægt að nota í meðhöndlun sjúklinga. Eitt þekktasta dæmið um slík efni er títan sem er notað í tannviðgerðir og liðskiptameðferðir á mjöðmum og hnjám.“

„Svo eru spennandi möguleikar enn á tilraunastigi með efni sem eru ekki eins varanleg í líkamanum eins og málmar. Þá kemur vefur í stað efnisins, en rannsóknir á þessu sviði kallast vefjaverkfræði,“ útskýrir Ólafur. „Dæmi um efni sem eyðast á slíkan hátt upp inni í líkama manneskju eru efnin unnin úr kítósana sem unnið er úr rækjuskel og alginate úr þörungum. Þessi efni verður til dæmis hægt að setja inn í líkamann með eða án stofnfruma ef orðið hefur bein- eða brjóskskaði.“ Lífstoðefni er jafnframt hægt að til að flytja lyf á staðbundin svæði í líkamanum.

Skandinavísku lífstoðefnissamtökin voru stofnuð árið 2008 og hafa það að markmið að tengja saman rannsóknarhópa sem hafa áhuga á lífstoðefnum (e. biomaterial)  á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Árlega halda samtökin ráðstefnu þar sem fengnir eru fyrirlesarar á heimsmælikvarða til að fjalla um hin fjölbreyttu málefni lífstoðefnafræðinnar. Ráðstefnan 2016 var haldin í Háskólanum í Reykjavík, þar sem 120 manns frá 11 mismunandi þjóðlöndum komu saman og ræddu lífstoðefni.

Samtökin leggja mikla áherslu á gefa ungu fólki tækifæri og hægt er að sækja um styrki til að heimsækja rannsóknarstofur á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.

Lesa um rannsóknarsetur í heilbrigðisverkfræði við HR

Lesa um Scandinavian Society for Biomaterials