Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Dr. Marina Candi nýr prófessor við viðskiptadeild

9.1.2018

Rannsóknir á sviði nýsköpunar

Dr. Marina Candi hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Marina er forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpun og frumkvöðlafræðum sem m.a. stendur fyrir langtímarannsókn á vexti og viðgangi nýrra íslenskra tæknifyrirtækja.

Hún hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu doktorsnáms við viðskiptafræðideild HR og var forstöðumaður námsins 2010-2017. Rannsóknir Marinu eru á sviði nýsköpunar, einkum er varðar nýsköpun byggða á hönnun, táknrænu gildi og upplifun. Niðurstöður rannsókna hennar hafa verið birtar í yfir 30 greinum í virtum alþjóðlegum vísindatímaritum og ritrýndum bókaköflum.

Marina_1515503445071Alþjóðlegar rannsóknir

Marina hefur byggt upp öflugt og víðfeðmt samstarfsnet og hefur unnið að rannsóknarverkefnum með fræðimönnum í Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Ítalíu, Póllandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum og víðar.

Hún hefur fengið styrki til rannsóknarverkefna hjá Evrópusambandinu og m.a. stýrt tveimur stórum fjögurra ára samstarfsverkefnum, hið fyrra var rannsóknarverkefni á sviði upplifunardrifinnar nýsköpunar og hið síðara á sviði nýsköpunar í viðskiptalíkönum. Hún hefur gegnt stöðu gestaprófessors við Luiss Guido Carli háskólann í Róm.

Bakgrunnur í tæknigeiranum

Marina er verkfræðingur að mennt og starfaði í tæknigeiranum í um 20 ár eftir að hún lauk meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá University of Washington í Seattle árið 1985. Hún tók þátt í stofnun, eða var meðal fyrstu hluthafa, þeirra fyrirtækja sem hún starfaði fyrir. Hún starfaði við hugbúnaðarþróun hjá Asymetrix Corporation í Bellevue í Washington 1985-1990 svo og hjá Margmiðlun hf., síðar Betware hf., og loks sem stjórnandi hjá Áliti hf., síðar Anza hf., 1998-2006. Hún hefur setið í stjórnum ýmissa íslenskra tæknifyrirtækja nær samfellt frá árinu 2000.

Marina lauk doktorsprófi í viðskiptafræði frá Copenhagen Business School árið 2008. Hún hefur gegnt stöðu dósents við HR frá árinu 2010.