Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Dr. Ragnhildur Helgadóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Bergen

15.10.2019

Ragnhildur Helgadóttir var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Bergen í dag, 15. október. Af því tilefni hélt hún hátíðarfyrirlestur í háskólanum í dag þar sem hún fjallaði um hlutverk dómstóla er þeir meta hvort lög samrýmist stjórnarskrá.

Ragnhildur Helgadóttir var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Bergen.Fv. Vice-Rector Robert Bjerknes, Ambassador Peter Thomson, Prof. Pippa Norris, Prof. Toril Moi, Prof. Anne Canteaut, Prof. Bruce R. Zetter, UiB Rector Dag Rune Olsen, Prof. Ragnhildur Helgadóttir, Prof. Eamon Duffy, Sir Peter Gluckman, Prof. Jo-Anne Baird og Pro-Rector Margareth Hagen. Ljósm. / ill .: Thor Brothers change, UiB 


Ragnhildur Helgadóttir er sviðsforseti samfélagssviðs Háskólans í Reykjavík en innan þess starfa fjórar akademískar deildir; lagadeild, viðskiptadeild, sálfræðideild og íþróttafræðideild. Ragnhildur er formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs, hefur dæmt mál í Hæstarétti, héraðsdómi og í Mannréttindadómstól Evrópu og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum.

Ragnhildur er þekkt hér á landi og erlendis fyrir rannsóknir sínar á m.a. stjórnskipunarrétti, stjórnskipunarsögu og samanburðarstjórnskipunarrétti. Hún fékk heiðursdoktorsnafnbótina fyrir framlag sitt á þessum sviðum en í umsögn skólans segir að hún sé frumlegur rannsakandi sem hafi í rannsóknum sínum fært út mörk hefðbundinna lögfræðirannsókna. Nýlegar rannsóknir hennar snúast um atriði eins og trúfrelsi, mannlega reisn og sögu fullveldishugtaksins.

Listi yfir útgefnar bækur og greinar Ragnhildar má finna á vefnum Academia.