Fréttir eftir árum


Fréttir

Þú notar frekar slettuna sem allir skilja

Spurningakannanir algengasta rannsóknaraðferðin í félagsvísindum í heiminum og í mörgum greinum heilsuvísinda

4.3.2022

„Þetta er flókin rannsóknaraðferð, þótt hún virðist einföld í fyrstu, sem og fjölbreytileg rannsóknaraðferð því maðurinn er viðfangsefnið og þú getur spurt um hegðun, skoðun, viðhorf, trú, í framtíð, nútíð og þátíð,” segir Þorlákur Karlsson, dósent við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík og annar höfunda Spurt og svarað – Aðferðafræði spurningakannana.

Meðhöfundur Þorláks er Þórólfur Þórlindsson, professor í félagsfræði og nú Emiritus við Háskóla Íslands. Bókin er fyrsta sinnar tegundar á íslensku og er skrifuð bæði sem kennslubók en líka ætluð fyrirtækjum sem framkvæma kannanir og fræðimönnum að nota þessa rannsóknaraðferð. En spurningakannanir er algengasta rannsóknaraðferðin í félagsvísindum í heiminum og eins í mörgum greinum heilsuvísinda.

MicrosoftTeams-image-3-

Þorlákur Karlsson, dósent við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, og annar höfunda Spurt og svarað – Aðferðafræði spurningakannana.

Upphaf spurningakannana má rekja allt aftur til ársins 1821 þegar Thomas Jefferson var kosinn. Þá var könnun lögð fyrir hóp manna á kosningafundi og fékk Jefferson meirihluta í könnuninni svo og vann kosningarnar. Þá má geta þess að í ævisögu Jónas Hallgrímsson, eftir Pál Valsson, kemur fram að Jónas hafi gert könnun meðal allra presta á Íslandi. Hann var þá að skrifa bók um landshagi á Íslandi og notaði tækifærið á ferðum sínum um landið til að dreifa 70 spurninga könnun til presta. Hann fór svo aftur um landið og rak á eftir svörum en slíkt þarf nú blessunarlega ekki lengur í nútímanum með tölvupósti og síma.

Menn halda margir að þeir geti sest bara við tölvu og skrifað spurningar en þetta er á svo mörgum stigum bæði málfars- og þekkingarlega séð. Sem dæmi ef þú hefur úr að velja íslensku sem enginn skilur eða slettu sem allir skilja þá notar þú slettuna, því miður, en aðal atriðið er að allir skilji. Það er kannski engin töfralausn til en mikilvægt er að forðast leiðandi orð sem geta haft áhrif og eins skiptir röð spurninga máli og að þær séu í jafnvægi. T.a.m. að spyrja frekar ertu ánægð/ur eða óánægð/ur með eitthvað frekar en hver er afstaða þín?” segir Þorlákur.

Hann segir að könnun geti hreinlega klúðrast sé ekki vel að verki staðið. Þorlákur starfar einnig sem rannsóknarstjóri Maskínu, sem hann stofnaði ásamt Þóru Ásgeirsdóttur árið 2010, og segist hafa séð í störfum sínum að best sé að prófa sig áfram en svo komi þetta auðvitað líka með reynslunni.

Þorlákur segist vilja auka gæði þessarar rannsóknaraðferðar og segist halda að tungumálið sé það sem heilli helst við aðferðina. Tungumálið sé ekki notað jafn mikið í neinni annnari rannsóknaraðferð sem um leið flæki málin því þá þurfi jú að skilja tungumálið og ýmis hugrenningartengsl tengd því.

Þar sem hver spurningakönnun er nýtt mælitæki verður höfundur ávallt að finna út úr því sjálfur hvernig eigi að gera hana úr garði. Bókin er því ekki eins og litabók þar sem velja má litina eftir uppgefnum númerum. Frekar bók til að fletta upp í og styðjast við,” segir Þorlákur sem er að vonum ánægður með útgáfuna en hugmyndina má rekja all mörg ár aftur í tímann þegar hann og Þórólfur kenndu saman við Háskóla Íslands. Þeir byrjuðu þá að skrifa saman og grunnur að einum fjórum köflum í bókinni birtust sem greinar en síðan eru ein tíu ár þar til ákváðu að fullgera bókina. Þorlákur segir samstarfið hafa verið langt en farsælt enda hafi þeir félagar sömu viðhorf til eflingar þessarar rannsóknaraðferðar þótt ólíkir séu.