Fréttir eftir árum


Fréttir

Efnahagslegt vægi verkefnastjórnunar skilgreint í fyrsta sinn

22.2.2021

Verkfræðingafélag Íslands gaf nýlega út þrjár fræðigreinar um sögu verkefnastjórnunar hér á landi og framtíð hennar. Útgáfan markar tímamót því þar er í fyrsta sinn birt aðferð til að mæla efnahagslegt vægi verkefna á Íslandi. Það síðastnefnda var jafnframt efni erindis sem flutt var í síðustu viku á vef HR og Vísis. 

Höfundar greinanna sem Verkfræðingafélagið gefur út eru þeir Haukur Ingi Jónasson, lektor við verkfræðideild HR og Helgi Þór Ingason, prófessor við deildina en þeir eru forstöðumenn MPM-náms sem er meistaranám í verkefnastjórnun, og Þórður Víkingur Friðgeirsson, lektor við verkfræðideild HR.

Bæði á vef og prenti

Hægt er að nálgast efnið á vef Verkfræðingafélagsins, bæði á sérstöku vefsvæði og í riti. Í formála segir: „Í þessum þremur greinum, sem allar byggja á rannsóknum, er fjallað um hvernig verkefnastjórnun þróaðist frá því að vera aðferð til að ná utanum verklegar framkvæmdir til þess að verða sjálfstæð fag- og fræðigrein. Þá er litið fram á veginn og framtíð fagsins leidd fram í áhugaverðri sviðsmynd."

Hvernig getum við dregið úr sóun?

Að þekkja efnahagslegt vægi verkefna í hagkerfinu, og hvernig staðan hvað þetta varðar er á Íslandi í samanburði við nágrannalönd, er mikilvægt innlegg í umræðu um góða stjórnunarhætti, áherslur í menntunarmálum þjóðarinnar, og hvernig draga má úr sóun og stuðla að betri nýtingu á opinberum fjármunum. Síðast en ekki síst skiptir þessi þekking máli í umræðu um samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og hvernig verkefnavæðing samfélagsins hefur áhrif á hana.

Screenshot-2021-02-22-at-07.53.29Skjáskot úr fyrirlestrinum.

Helgi Þór fjallaði um efnahagslegt vægi verkefna í síðasta þriðjudagsfyrirlestri svokölluðum, en það eru viðburðir sem HR heldur á vefnum í samstarfi við Vísi.

https://vimeo.com/512899154