Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Efnahagsstefna Trumps popúlismi frekar en hefðbundin stefna repúblikana

16.11.2016

Donald Trump var til umræðu í hádeginu í Háskólanum í Reykjavík í dag. Viðskiptadeild HR stóð fyrir málstofu undir heitinu „Donald Trump - af hverju og hvað svo?" Þar voru ræddar efnahagslegar og samfélagslegar ástæður og afleiðingar af kjöri Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna. Fræðimenn tókust á við spurningar eins og: Brugðust skoðanakannanir? Hvernig er sálarlíf kjósenda Trumps og hvað eru „Trumponomics"?

Sterkari tilfinningar í spilinu núna

Þorlákur Karlsson, dósent við sálfræðisvið HR, ræddi niðurstöður skoðanakannana í aðdraganda kosninga, en mörgum þóttu þær hreinlega hafa brugðist þar sem spálíkön sögðu fyrir um sigur Clinton, ekki Trumps. Að sögn Þorláks er þessi niðurstaða ekki vísbending um að skoðanakannanir hafi brugðist þó að flestar kannanir hafi vanmetið fylgi Trumps lítillega. Hillary Clinton hafi fengið fleiri atkvæði, og ef hún hefði fengið t.d. örlítið fleiri kjörmenn í einungis tveimur fylkjum væri hún núna nýr forseti Bandaríkjanna. Þetta lýsi frekar veiku kosningakerfi. Þorlákur benti á að árið 2012 hafi kannanir vanmetið fylgi Obama í mörgum fylkjum án þess að dómur hafi verið felldur yfir skoðanakönnunum. Nú séu hins vegar sterkari tilfinningar í spilinu og sárari vonbrigði með niðurstöðuna hjá stórum hluta Bandaríkjamanna. Átökin séu líka af öðrum toga nú en oft áður og lýðfræðileg samsetning kjósenda Trumps ekki dæmigerð fyrir kjósendur repúblikana.

Þorlákur Karlsson

Höfðaði til hægri valdsmannspersónuleikans

Hulda Þórisdóttir, dósent við stjórnmála- og sálfræðideildir HÍ, skyggndist inn í sálarlíf Trump-kjósandans og hvað helst einkennir viðhorf hans. Samkvæmt Huldu er það sú tilfinning að vera að missa forréttindastöðu sína, enda var stærsti hópur kjósenda Trumps hvítir karlmenn. Slagorðið Make America Great Again hafi hitt þennan hóp í hjartastað með því að vísa til tímabils í sögu þjóðarinnar þar sem þessi hópur naut hvað mestra forréttinda. Hulda sagði leiðtogastíl og skilaboð Trumps höfða til persónuleika sem hafi verið mikið rannsakaður frá því að seinni heimsstyrjöld lauk: hægri valdsmannspersónuleika. Trump sé einfaldur og refsiglaður. Hægri valdsmannspersónuleiki sýni undirgefni við yfirvöld, styðji almenna árásargirni t.d. í garð jaðarhópa, sýni fylgispekt við félagslegar venjur og hafi þörf fyrir röð og reglu. Þessi kjósandi telur heiminn vera hættulegan og sýnir mikla næmni fyrir fyrir utanaðkomandi ógn og samfélagsbreytingum. Dæmi um utanaðkomandi ógn í nýafstaðinni kosningabaráttu sé til dæmis Íslamska ríkið, eða Isis.

Hulda Þórisdóttir

Hlutabréfamarkaðir eru tilfinningalausir

Már Wolfgang Mixa, lektor við viðskiptadeild HR, fjallaði um þróun hlutabréfa og markaða í kjölfar forsetakjörs í Bandaríkjunum, nú fyrir stuttu og í gegnum tíðina. Erindi hans bar heitið „Tilfinningalausir markaðir“ enda var megininntak Más að hlutabréfamörkuðum sé alveg sama hvað gerist í heiminum. Hvort sem það tengist fréttum af yfirvofandi styrjöldum eða farsóttum, þá séu það helst upplýsingar um stýrivexti sem skipti máli. Hann sagði það athyglisvert að í kjölfar kjörs Trumps hafi hlutabréf rokið upp í Bandaríkjunum og að þetta hafi verið besta vikan í fimm ár fyrir bandarísku hlutabréfavísitöluna.

Már Mixa

„Trumponomics“ í anda popúlisma

Síðastur á mælendaskrá var Friðrik Már Baldursson, prófessor við viðskiptadeild HR, sem fjallaði um Trump og efnahagsmálin eða „Trumponomics“. Hann greindi frá því að Trump hafi sett fram 100 daga áætlun um að gera Bandaríkin great again. Margt í þeirri stefnu sé þó mótsagnakennt. Sem dæmi má nefna þá yfirlýstu stefnu hans að veita meira fjármagni í varnarmál og uppbyggingu innviða en samt sem áður að lækka skatta og afnema erfðafjárskatt. Friðrik Már sagði stefnu Trumps í efnahagsmálum í raun ekki vera hefðbundna stefnu repúblikana heldur vera dæmigerða fyrir popúlisma, þar sem stór loforð eru gefin mörgum hópum. Gott dæmi um slíkan leiðtoga sé Berlusconi á Ítalíu. Þannig sé það ekki í eðli repúblikana að tala fyrir verndarhyggju og takmarka inn- og útflutning og stórefla innviðafjárfestingu. Í tíð Obama hafi einmitt þingið, þar sem repúblikanar voru í meirihluta, komið í veg fyrir slíkt.

Friðrik Már Baldursson

Fundurinn var vel sóttur og nýttu fundargestir síðustu 10 mínúturnar vel til að spyrja frummælendur spurninga um kjör Trumps. Fundarstjóri var Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður BSc-náms í viðskipta- og hagfræði við HR.