Fréttir eftir árum


Fréttir

Eftirsótt sérhæfing í máltækni og gervigreind

Tinna Sigurðardóttir hjá Íslenskri erfðagreiningu

26.4.2022

Tinna Sigurðardóttir starfar sem sérfræðingur í upplýsingaöryggi hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hún útskrifaðist úr meistaranámi í máltækni og gervigreind frá HR árið 2021.

„Ég hafði áhuga á gervigreind, hafði tekið áfanga í gervigreind og vélrænu gagnanámi í grunnáminu og langaði að læra meira. Mér hefur líka alltaf þótt gaman að flétta saman ólíkar greinar, lærði sálfræði við HÍ áður en ég fór í tölvunarfræði í HR og fannst spennandi að geta tekið áfanga í ólíkum greinum og í báðum skólunum,” segir Tinna aðspurð um hvernig hún valdi sér meistaranám.

MicrosoftTeams-image-9-_1650971418872

Tinna Sigurðardóttir starfar hjá Íslenskri erfðagreiningu og er með MSc í gervigreind og máltækni.  

Hún segir námið hafa verið skemmtilegt, fyrra árið hafi hópurinn fylgst að, en seinna árið hafði hún tækifæri á að gera námið meira að sínu og tók þá áfanga í kynjafræði og siðfræði. Þeir áfangar nýttust síðan í meistaraverkefninu hennar sem fjallaði um að greina kynjahalla í íslenskum málheildum.

Í dag nýtir Tinna helst aðferðirnar sem hún lærði í náminu til að vinna með texta, hvort sem um er að ræða náttúruleg tungumál eða forritunarmál. Þá nýtast valfögin henni sérlega vel í núverandi starfi þar sem upplýsingaöryggi og siðfræði eiga vel saman.

„Ég myndi mæla með náminu fyrir þau sem hafa áhuga á að vinna með texta, textaskrár eða hljóð og þau sem hafa áhuga á þverfaglegu námi. Það eru líka tækifæri til þess að fá allskonar styrki í tengslum við máltækniverkefni svo það skemmir ekki fyrir,” segir Tinna.

Meistaranám í gervigreind og máltækni við Háskólann í Reykjavík er þverfaglegt nám sem lýtur annars vegar að sjálfstæðum rannsóknum og hins vegar að þróun hugbúnaðar og lausna sem geta unnið með og skilið náttúruleg tungumál. Námið veitir nemendum eftirsótta sérhæfingu til að starfa á þessu sviði, hvort heldur á íslenskum eða alþjóðlegum vettvangi.

Umsóknarfrestur 2022 er til 5. júní næstkomandi.

Kynntu þér námið hér