Eiga björgunarsveitir að hlaupa á eftir trampólínum?
Hauki Inga Jónassyni, lektor við tækni- og verkfræðideild HR og formanni stjórnar MPM-náms, meistaranáms í verkefnastjórnun, hefur verið falið að vinna að stefnumótun fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörgu. Hann var gestur í Kastljósi RÚV í vikunni til að ræða þetta viðamikla verkefni.
Starfsemi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, framtíð þess og hugsanlegar breytingar, var meðal þess sem rætt var í þættinum en nýafstaðinn vetur hefur verið annasamur hjá björgunarsveitum, bæði vegna fjölgunar ferðamanna og óblíðrar veðráttu. Það má því segja að mikið hafi mætt á björgunarsveitarfólki.
„Ég hef orið þess áskynja að það er ákall eftir skýrum línum gagnvart öðrum aðilum, meðal annars ríkinu og öðrum viðbragðsaðilum. Það er ákall eftir meiri fagmennsku, auknu fjármagni, minni tíma í fjáraflanir og meiri samheldni og samstöðu innan félagsins,“ sagði Haukur Ingi en hann mun kynna niðurstöður úr ótal viðtölum sem hann hefur átt við félagsmenn um allt land á landsþingi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í lok maí.
Hann segir það hafa verið gríðarlega áhugavert að fara um landið og hitta allar þær einingar sem starfi í nafni Landsbjargar. „Samtalið hefur verið mjög opið og mikið hefur verið rætt um ákveðna álagspunkta í starfi sveitanna.“
Haukur segir vonir félagsmanna standa til þess að fá almenning í lið með sér í stefnumótunarvinnuna. „Við viljum biðja þá sem gætu haft áhuga á því að taka þátt í stefnumótuninni og senda okkur tölvupóst á landsbjorg@landsbjorg.is. Það er kominn tími til að endurskoða hlutverkið.“ Haukur Ingi sagðist búast við líflegum umræðum um framtíðarhlutverk samtakanna á landsþinginu í maí.
Meðlimir í björgunarsveitum sátu einnig fyrir svörum. Öll voru þau sammála um að ekki ætti að atvinnuvæða starfsemi björgunarsveitanna. Til dæmis væri hægt að fækka útköllum þar sem björgunarsveitarfólk þarf að hlaupa á eftir grillum og trampólínum en þau væri hægt að koma í veg fyrir með samvinnu við almenning.