Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Ekki elta peninginn, heldur áhugann

13.4.2018

Nemendur Háskólans í Reykjavík fá oft hugmyndir að nýjum fyrirtækjum á meðan þeir eru í námi. Svo fyrirfinnast líka nemendur sem eru þegar komnir með hugmynd að nýju fyrirtæki áður en þeir byrja í námi. Grétar Már Margrétarson útskrifaðist með BSc-gráðu í viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein í júní 2017. Samhliða náminu byggði hann upp fyrirtækið sitt, Iðnlausn.

Maður stendur fyrir framan steypuvegg í HR„Ég fæ þessa hugmynd haustið 2013, að það gæti verið sniðugt að vera tækni- og viðskiptaaðili fyrir iðnfyrirtæki á Íslandi. Ég var búinn með áfanga í hugbúnaðarverkfræði í HR en sá að ég þyrfti að fara í viðskiptafræði til að geta þróað hugmyndina áfram.“

Ný námsbraut var svarið

Háskólinn í Reykjavík bauð ekki upp á nám sem samtvinnaði viðskipta- og tölvunarfræði á þeim tíma en það var samþykkt að Grétar mætti taka áfanga úr báðum deildum til þess að ná sér í þá kunnáttu sem hann þurfti,  þó svo að hann myndi sennilega ekki útskrifast með háskólagráðu. Svo fékk Grétar Már símtal nokkrum vikum eftir viðtal við verkefnastjóra á skrifstofu viðskiptadeildar. „Verkefnastjórinn var sem sagt ekki búinn að gefa þessa hugmynd upp á bátinn, ekki frekar en ég sjálfur, og tilkynnti mér að HR myndi byrja bráðum að taka við umsóknum í nýja námsbraut, viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein. Þetta var alveg hreint frábær tilviljun.“ Við útskrift, þremur árum síðar, var Grétar Már að sjá um ýmis mál fyrir 10 iðnfyrirtæki og að eigin sögn búinn að læra heilmikið um markaðinn. „Þetta er búinn að vera krefjandi tími en ég sé ekki eftir þessu.“

Alinn upp í kaffiskúrum

En af hverju iðnfyrirtæki? „Af því að ég hef tilfinningu fyrir þörfum slíkra fyrirtækja og hef tengslanetið. Faðir minn er málarameistari, afi var múrarameistari og þeir unnu báðir sjálfstætt. Ég er alinn upp í farþegasætinu í vinnubílum og við spjall í kaffiskúrum. Ég hef unnið sjálfur við alls kyns störf, hef smíðað, múrað, háþrýstiþvegið og margt fleira.“ Grétar segist frá barnaæsku alltaf hafa fengið hugmyndir reglulega að nýjum fyrirtækjum. „Ég hef gaman af því að skapa eitthvað nýtt. Svo fékk ég ráð fyrir nokkrum árum síðan sem breytti öllu. Faðir góðs vinar míns, Kristján Gíslason að nafni, sagði við mig: Allar þessar hugmyndir eru fínar hjá þér, en það fer ekkert að gerast þangað til þú hættir að elta peninginn, og ferð að elta það sem þú hefur virkilega áhuga á. Þetta var alveg hárrétt. Ég gerði mér grein fyrir því að ég hef gríðarlegan áhuga á umhverfi iðnaðarmanna og iðnfyrirtækja á Íslandi.“ Grétar Már segir atvinnugreinina hafa setið eftir að einhverju leyti og hann vill bæta úr því. „Ég veit að mörg smærri iðnfyrirtæki eru með frumstæðar aðferðir við utanumhald ýmis konar og svo vantar oft inn í þessi fyrirtæki þekkingu á viðskiptum og tækni.“

Er tölvukarlinn

Í dag býður Iðnlausn iðnfyrirtækjum þjónustu á sviði rekstrarmála, reikninga, launa, samninga og bókhalds, markaðsmála, merkinga, vefsíður, firmamerki og nafnspjöld. Svo sér hann um tæknihliðina í samstarfi við Microsoft á Íslandi. „Já, ég er tölvukarlinn! “, segir Grétar. „Ég er einn í þessu núna en er með góða aðila með mér sem ég sendi ákveðin verkefni ef þörf er á, sérstaklega í vefsíðugerð eða bókhaldi og svo má alls ekki gleyma öllum góðu samstarfsaðilum mínum sem hafa hjálpað mér mjög mikið”.

Meðbyr gefur kraft

Eins og sagt var hér í byrjun var Grétar kominn með hugmyndina að fyrirtækinu sínu Iðnlausn áður en hann hóf nám í viðskiptafræði. Hvernig fór þetta saman, að stunda fullt nám og koma nýju fyrirtæki á koppinn? „Það er einfaldlega þannig að HR hefur skipt höfuðmáli fyrir mig. Hér er gott fólk sem hvetur mann til að fara út fyrir þægindarammann. Ég get talað við ótal kennara sem eru tilbúnir að hlusta á hugmyndir og vilja gefa manni ábendingar og hjálpa til að við að finna lausnir á vandamálum. Kennararnir við viðskiptadeild hafa bara svo mikinn áhuga á frumkvöðlastarfsemi og eru sérfræðingar á því sviði.“ Hann nefnir sérstaklega aðstoð Hrefnu Briem, forstöðumanns grunnnáms við deildina og sérfræðings í nýsköpun, Eirík Sigurðsson, forstöðumanns markaðsmála, Pál Melsted Ríkharðsson, forseta deildarinnar og Ara Kristinn Jónsson, rektor. „Allt þetta fólk gaf sér tíma í að hlusta á mig og gefa mér ómetanleg ráð. Starfsfólk tölvunarfræðideildar sömuleiðis. Svo er námið verkefnadrifið og faglegt og býr mann vel undir atvinnulífið. Ég er óendanlega þakklátur fyrir þennan stuðning. Þegar maður fær svona góðan meðbyr fær maður enn meiri kraft í að fylgja því sem maður hefur áhuga á.“