Fréttir eftir árum


Fréttir

„Ekki vera hrædd við að mistakast“

13.5.2019

Sólin er þéttsetin þessa dagana þar sem um 500 nemendur sitja í rúmlega 100 fjögurra til fimm manna hópum og vinna að eigin nýsköpunarhugmyndum.

Innan HR hefur alltaf verið lögð áhersla á að nemendur kunni að fylgja hugmyndum sínum eftir og stofna fyrirtæki. Meðal annars með þessu námskeiði sem nú stendur yfir sem heitir Nýsköpun og stofnun fyrirtækja, og er þriggja vikna verklegt námskeið og skylda fyrir flesta grunnnema. Þar að auki geta meistaranemar við HR valið að útskrifast með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlafræði, þvert á deildir.

Seres er fyrsta frumkvöðlasetrið sinnar tegundar

Innan Stúdentafélags HR er starfandi Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd sem hefur það markmið að efla nýsköpun á meðal nemanda skólans ásamt því að taka þátt í verkefnastjórn Gulleggsins. Síðustu mánuði hefur nefndin unnið hörðum höndum að því að opna frumkvöðlasetur HR sem er jafnframt fyrsta frumkvöðlasetrið við íslenskan háskóla. Setrið heitir Seres og er staðsett við hliðina á Bragganum í Nauthólsvík. Nú hafa sjö hópar sótt um aðstöðu í Seres í sumar en opið er fyrir umsóknir til 17. maí.

Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd

Þau Stella Dögg Blöndal, nemi í rekstrarverkfræði, Lísa Rán Arnórsdóttir, einnig nemi í rekstrarverkfræði, Sigurður Steinar Valdimarsson, nemi í viðskiptafræði, Anton Björn Sigmarsson, nemi í hátækniverkfræði og Anton Freyr Arnarsson, nemi í tölvunarfræði skipa Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd HR. Fimmmenningarnir þekkja nýsköpunarferlið vel enda voru tvö þeirra í sigurliði Hnakkaþons í byrjun ársins og öll hafa lokið Nýsköpun og stofnun fyrirtækja, eða eru að taka þátt í því núna.

Hópur nemenda stendur í tröppunum í Sólinni

Frá vinstri: Sigurður Steinar, Stella Dögg, Anton Björn, Lísa Rán og Anton Freyr.

Ekki bara ný öpp

Við settumst niður með nefndinni til að ræða aðeins um nýsköpun en þau hafa mörg góð ráð til þeirra sem langar að spreyta sig á frumkvöðlastarfsemi. „Maður þarf ekkert endilega að finna upp hjólið og það er algjör misskilningur að nýsköpun snúist um ný öpp. Maður þarf einfaldlega að þróa eitthvað sem manni finnst vanta eða vill sjá í boði eða nýta betur.“ Til þess að sækja um í Seres þarf ekki að hafa tilbúna rekstraráætlun, heldur aðeins hugmynd og viljann til að vinna að þróun hennar. Svo má alls ekki vera hræddur við að mistakast. „Maður lærir svo mikið á mistökunum.“

Þjónusta í Seres

Þau segja viðfangsefni fylgja ákveðnum tískustraumum eins og annað. „Trend snúast um tísku og tíma og núna er mikil áhersla á umhverfismál. Okkar kynslóð hugsar mikið um hlýnun jarðar.“ Þau segja umræðu og meðvitund um mikilvægi nýsköpunar alltaf vera að aukast. „Námskeiðið Nýsköpun og stofnun fyrirtækja kveikir á áhuga nemenda hér í HR og þeir fá mjög góða grunnþekkingu. En þetta er aldrei auðvelt og þess vegna er svo gott að hafa Seres þar sem þröskuldunum er fækkað – þar hefurðu aðgang að mentorum, fundaaðstöðu og skrifstofuaðstöðu og allt ókeypis, auk þess að hafa færi á að leita ráða og tala við fólk í sömu stöðu. Þannig að þú þarft ekki að hafa áhyggjur af þeim kostnaði í ofanálag, sem stoppar marga í halda áfram með hugmyndir.“ Ekki spilli að þar sé hátt til lofts og gott útsýni yfir víkina og út á sjó.

Láta vaða!

Þau eru ánægð með fjölda umsókna í Seres fyrir sumarönnina. „Aðsóknin fór eiginlega fram úr vonum en við viljum samt fá fleiri. Tímabilum í Seres er skipt niður í vor, sumar og haust en hópar og einstaklingar geta svo sótt um að vera áfram. Það opnar aftur fyrir umsóknir í haust og það verður auglýst svo það ætti ekki að fara framhjá neinum.“ Nefndin sér um utanumhald Seresar og dagskrá en teymin fá til sín fyrirlesara sem halda erindi fyrir hópana og einhverjir þessara fyrirlestra verða opnir almenningi. Nýir fulltrúar í Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd taka svo við í haust. „Við hvetjum alla til að kynna sér Seres og láta vaða!“

Það er hægt að senda póst á seres@ru.is, og fá að skoða aðstöðuna og fræðast betur um starfsemi Seres og eins og áður sagði, er opið fyrir umsóknir fyrir sumarið til 17. maí.