Fréttir eftir árum


Fréttir

Engin lúxusmeðferð fyrir leikara Game of Thrones

9.5.2019

Brynhildur Birgisdóttir, framleiðandi hjá Pegasus, hélt fróðlegt erindi á vegum MPM-námsins, meistaranáms í verkefnastjórnun, síðasta föstudag í HR. Pegasus hefur séð um tökur á þáttunum Game of Thrones hér á landi og Brynhildur hafði frá mörgu um þetta stóra verkefni að segja, enda um margt einstakt.

Kona flytur fyrirlesturBrynhildur Birgisdóttir og Íris Hrund Þórarinsdóttir, verkefnstjóri MPM-námsins, sem var fundarstjóri.

Tökur á þessum vinsælu þáttum hófust hér á landi árið 2011. Á þessum átta árum sem þær hafa tekið hefur þurft að gera kostnaðaráætlanir, velja tökustaði, skipuleggja tökurnar sjálfar, gistingu og fæði, ferðir til og frá tökustöðum, að fá rétt leyfi og ótal margt fleira. Þetta hefur því verið flókið og fjölþætt verkefni sem hefur krafist mikils fjármagns og flókinnar áætlanagerðar.

Aðstæðurnar oft erfiðar

„Við höfum ekki haft neitt um hina skapandi hlið að segja, nema það að við höfum borið tillögur að tökustöðum undir framleiðendurna. Við höfum séð um praktíska hlutann og þar með þurft að glíma við erfiðar aðstæður, síbreytilegt veður og ferðamannasprengju sem hefur gert okkur erfitt fyrir að bóka gistingu fyrir tökulið og leikara,“ sagði Brynhildur í erindi sínu. Hún sagði það vissulega auðvelda framkvæmdina hvað framleiðandinn HBO hefur úr að spila háum fjármunum fyrir þættina auk þess sem allir séu með það á hreinu hvað þeir eiga að gera og hvernig. „Leikararnir mæta vel undirbúnir í tökur og okkar starfsfólk er búið að koma tökubúnaðinum fyrir með góðum fyrirvara, oft eftir að hafa klöngrast í gegnum hraun eða vaðið háa skafla!“

Tjald í snjó og fjöll í kringVerðum að hafa plan B

Brynhildur segir bráðnauðsynlegt að vera með plan B. „Ég minntist áðan á veðrið en það er bara einn hluti af því sem maður þarf að vera viðbúinn að breytist. Það hefur komið fyrir að tökustaður sem var ákveðinn að sumri gengur ekki af því það hefur einfaldlega snjóað of mikið. Þá þarf að fara á staðinn sem var til vara. Svo hafa framleiðendurnir verið áhyggjufullir yfir birtingum á myndum frá tökum á samfélagsmiðlum og við sem komum að þessu skrifum að sjálfsögðu undir trúnaðarsamning en maður ræður ekki hvað ferðamenn gera sem sjá okkur vinna úti í náttúrinni. Önnur áskorun er svo sú að Ísland er fámennt land sem þýðir að það er fullt af frábæru fagfólki hér en það þarf lítið til að allir séu fastir í öðrum verkefnum. Stundum getur maður fengið 10 kvikmyndatökumenn en alls ekki alltaf.“

Engar lúxussvítur

Í svona flóknu verkefni gerir jákvæðnin og viljinn til að klára þetta verkefni í sameiningu þetta allt auðveldara og er mjög dýrmætt. „Íslenska tökuliðið er vant erfiðum aðstæðum og leikaraliðið er ekki með aðstoðarfólk og er ekki á lúxusherbergjum á gististöðunum. Peningurinn fer ekki í slíkt heldur í það sem áhorfendur sjá á skjánum.“