Fréttir eftir árum


Fréttir

Er eitthvað vit í repjuolíu?

4.12.2019

Nemendur við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík unnu á dögunum verkefni með sjávarútvegsfyrirtækinu Brim sem miðaði að því að auka sjálfbærni fiskveiða enn frekar með notkun repjuolíu sem eldsneyti í stað olíu.

Verkefnið var hluti af nýju námskeiði sem heitir Viðskipti, leiðtogafræði og sjálfbærni. Námskeiðið er unnið í samstarfi milli HR og Avans University of Applied Sciences í Hollandi. Kúrsinn er hannaður með það að markmiði að nemendur þurfa sjálfir að finna samstarfsfyrirtæki og vinna verkefni í samvinnu við það. Einnig fer hópurinn til Avans University og situr þar fimm daga námskeið um frumkvöðlafræði og sjálfbærni með nemendum frá Hollandi, háskóla í Kanada og alþjóðlegum skiptinemum.

Stjórnendurnir birtust og hlýddu á kynninguna

Nemendurnir könnuðu hvort það væri raunhæfur möguleiki á því að færa eldsneytisnotkun Brim alfarið frá dísilolíu yfir í repjuolíu og þar með draga úr mengun, spara fjármuni og nýta innlenda framleiðslu. Auk þess að framleiða repjuolíu sem eldsneyti verða til nýjar afurðir, svo sem fóðurmjöl og fleiri afurðir sem einnig nýtast hér á landi. Einnig dregur úr kolefnisfótspori Brims við að framleiða repjuolíu á íslandi í stað þess að flytja inn eldsneyti á skipaflotann.

Nemendur halda kynninguÞegar nemendur voru í þann mund að byrja að kynna verkefnið fyrir stjórn Brim þá birtist upp úr þurru sendinefnd ásamt sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í heimsókn. „Nemendur kynntu því verkefnið bæði á ensku og íslensku og vakti það mikla athygli og hrifningu viðstaddra,“ segir Kjartan Sigurðsson, verkefnastjóri innleiðingar sjálfbærnimarkmiða í HR og jafnframt leiðbeinandi í námskeiðinu og upphafsmaður þess.

Aukin hagkvæmni og minni mengun

Það kom nemendunum á óvart að notkun á repjuolíu væri ekki útbreiddari hjá íslenskum fyrirtækjum almennt. „Þetta virðist nefnilega ekki mjög flókið en hagkvæmt og umhverfisvænt,“ segir Jónas Kári Eiríksson, einn nemendanna sem unnu verkefnið. „Skinney-Þinganes eru til dæmis þegar byrjuð á þessari vegferð,“ segir Jónas en Skinney-Þinganes hlaut verðlaun árið 2018 fyrir að knýja skip með þessum hætti. Nemendurnir ræddu við fjölmarga aðila meðan á verkefninu stóð, meðal annars starfsfólk hjá Samgöngustofu, Skinney-Þinganes og Ólaf Eggertsson, bónda á Þorvaldseyri sem framleiðir repjuolíu.

„Markmið verkefnisins var ekki að skera endanlega úr um þessi umskipti heldur kanna hvort að það sé skynsamlegt að skoða þessi mál af meiri alvöru,“ og segir Jónas að niðurstöðurnar sýni að full ástæða sé til þess. Það verður kennt aftur á haustmisseri 2020 og er valnámskeið fyrir þriðja árs grunnnámsnema í viðskiptafræði og hagfræði.

Nemendur í kennslustofuÚr kennslustund í Hollandi.

Vilja draga úr áhrifum á umhverfið

„Fyrir okkur í sjávarútvegi vega orkuskipti skipaflotans mjög þungt og því var ánægjulegt að taka þátt í verkefni með nemendum í Háskólanum í Reykjavík, meðal annars til að kanna kosti repjuolíunnar,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim. „Niðurstöður gefa tilefni til að skoða málið frekar,“ segir Guðmundur en Brim vinnur að markmiðum Sameinuðu þjóðanna um að draga úr vistspori og minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. „Brim mun áfram leita leiða að auka sjálfbærni í starfsemi sinni í góðri samvinnu við fyrirtæki, rannsóknastofnanir og skóla,“ segir Guðmundur sem er þakklátur fyrir gott samstarf við nemendur og starfsfólk skólans.