Fréttir eftir árum


Fréttir

Erlendir nemendur boðnir velkomnir í blíðviðri

25.8.2021

HR tók á móti 192 skiptinemum og 59 erlendum nemendum í fullt nám um miðjan ágúst. Áður en skólaárið hófst bauðst þeim að fara í gegnum fræðslu á netinu frá alþjóðaskrifstofu HR. 

Móttaka erlendra nemenda í upphafi þessa skólaárs var nokkuð lituð af heimsfaraldri eins og verið hefur undanfarnar annir. Nemendurnir gátu farið í gegnum rafrænan upplýsingapakka áður en þeir lögðu af stað til Íslands. Einnig bauð alþjóðaskrifstofa HR upp á vefstofur, bæði fyrir nemendur sem voru að koma frá Evrópu og einnig fyrir þá sem voru að koma lengra að og þurftu að sækja um vegabréfsáritun og dvalarleyfi.

Kynningardagur í HR

Þegar til Íslands var komið var nemendunum boðið í HR á kynningardag. Þeim var skipt upp í 11 hópa til þess að gæta að sóttvörnum. Fyrir hverjum hópi fóru tveir HR mentorar og stýrðu þeir dagskrá síns hóps með miklum sóma. Hóparnir hlýddu á kynningar og fengu kynnisferðir um skólabygginguna. Mentorar eru nemendur Háskólans í Reykjavík sem sækjast eftir aukinni alþjóðlegri reynslu og tengslum við erlenda nemendur HR. Hlutverk þeirra er meðal annars að stuðla að inngildingu (e. inclusion) nýnema sem koma frá öðrum löndum og menningarheimum.  

Hópur nemenda situr úti og borðar

Heitt var í veðri á kynningardaginn og því tilvalið að borða hádegismatinn úti undir beru lofti. 

Hópurinn í tölum 

Hunt

Flestir skiptinemar frá Frakklandi og Þýskalandi

192 skiptinemar þetta haustið koma frá 26 löndum. Stærstu hóparnir koma frá Evrópu:  

 

 • Þýskaland: 46
 • Frakkland: 39
 • Spánn: 19
 • Svíþjóð: 12
 • Danmörk: 10
 • Holland: 10
 • Ítalía: 10
 • Noregur: 9

 

Nokkuð jöfn skipting er á milli grunn- og framhaldsnáms, 98 stunda skiptinám í BSc-námi og 94 í MSc-námi. Flestir þeirra sóttu um í þessum þremur deildum:  

 

 • Viðskiptadeild: 88
 • Verkfræðideild: 59
 • Tölvunarfræðideild: 27

 

Ofangreindar deildir bjóða upp á meistaranám á ensku og skýrir það að öllum líkindum vinsældir meðal erlendra nema. Allar akademískar deildir HR bjóða svo upp á nokkur námskeið á BA- og BSc- stigi á ensku á hverju ári sem skiptinemar geta sótt um.  

Bandarískir háskólanemar vilja sérhæfingu í sjálfbærri orku

Auk skiptinemanna hófu 59 erlendir nemendur fullt nám við HR. Þeir koma frá 26 löndum en langflestir þeirra, eða 41 talsins, eru skráðir í Iceland School of Energy innan verkfræðideildar HR. Þar eru þeir í algjörum meirihluta en á eftir þeim kemur Kanada með fjóra nemendur. 

Alls stunda 12 erlendir nemendur frá 10 löndum nám við viðskiptadeild og þrír við verkfræðideild, tveir við tölvunarfræðideild og einn við sálfræðideild. 


Hópur nemenda í heitri laug

 

Hluti hópsins fór í Sky Lagoon og fékk þannig annað sjónarhorn á HR. 

Það er alþjóðaskrifstofa HR sem sér um móttöku erlendra nemenda við háskólann.