Beittasta vopn snjallra verslana… innkaupakerra?
Mikilvægt að gera verslunarferðirnar auðveldari
Grein Valdimars Sigurðssonar, prófessors við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, og samstarfsfólks hans er grein vikunnar á vef Alþjóðasamtaka atferlissálfræðinga í Bandaríkjunum. Greinin heitir The Use of Observational Technology to Study In-Store Behavior: Consumer Choice, Video Surveillance, and Retail Analytics.
Skrásetning hegðunar og mælingar á atferli fólks í verslunarumhverfi er eitthvað sem hefur aukist gríðarlega undanfarin misseri. Í stuttu máli má segja að slíkar rannsóknir snúist um það hvað fólk gerir í verslunum, hvað fólk er ánægt með í verslun og hvað ekki. Núna gefa atferlisrannsóknir með aðstoð myndavéla og greining gagna færi á því að rannsaka betur verslunarhegðun fólks og í náinni framtíð munu sýndarveruleiki og sjálfvirknivæðing auka möguleikana á þessu sviði enn frekar.
Markaðssetning á hollum matvælum
Í grein Valdimars, sem hann skrifar ásamt Nils Magne Larsen og Jørgen Breivik, er því haldið fram að rannsóknir sem framkvæmdar eru inni í verslunum séu mikilvægur þáttur í þeim fræðum sem snúa að atferlisgreiningu neytenda en með slíkum rannsóknum er hægt að lýsa, spá fyrir um og hafa áhrif á hegðun. Mikilvægt er að nýta slíkar rannsóknir til að auðvelda verslunarferðir og bæta upplifun. En hagnýting rannsókna Valdimars gengur sérstaklega út á að markaðssetja betur holl matvæli.
Lítið vitað um innkaupakörfurnar
Í greininni er tekið dæmi af notkun og mikilvægi innkaupakerra og karfa, en núna eru í gangi rannsóknir og prófanir sem ganga út á það að breyta þeim í snjöll tæki með stafræna skjái fyrir neytendur. Höfundar sýna hversu lítið er vitað fræðilega um innkaupakerrur og þátt þeirra í verslunarleiðangri, þó að slík aðstoð fyrir neytendur, og sölutæki fyrir verslunina, hafi verið við lýði síðan 1936. Höfundar sýna dæmi um atferlisgreiningu sem að getur t.d. greint slóð neytanda um verslun, hversu marga metra hann gengur, hversu lengi hann heimsækir ákveðin svæði, hvort hann tekur upp ákveðnar vörur og svo hvort hann kaupir þær. Þeir sýna dæmi þar sem þeir greina gögn frá 635 neytendum sem að heimsóttu verslun sem sýnir fram á mikivægi innkaupakerra fyrir sölu en einnig hvaða þættir tengjast vali á innkaupakerrum.
Fyrir áhugasama má lesa greinina hér: