Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur fá þjálfun í þriggja vikna námskeiðum

3.6.2016

Eitt af áhersluátriðum í kennslu við Háskólann í Reykjavík er að þjálfa nemendur í að beita þeirri fræðilegu þekkingu sem þau öðlast í náminu. Þetta er gert meðal annars með sérstöku námsskipulagi sem brýtur annirnar upp í tvo hluta. 

Annir hefjast á 12 vikna námskeiðum sem svo lýkur yfirleitt með prófum. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem lögð er áhersla á hagnýtingu þess fræðilega efnis sem þau lærðu á 12 vikna tímabilinu, oft í hópavinnu og stundum verklegu. 

Í myndbandinu eru nokkrir nemendur í þriggja vikna námskeiðum teknir tali.

Hermun, hönnun og stefnumótun

Dæmi um þriggja vikna námskeið í grunnnámi í tækni- og verkfræðideild eru bestun og hermun á framleiðslu og framleiðsluskipulagningu, tauga-raflífeðlisfræði, verkefnastjórnun og Hönnun X. Í viðskiptafræði fást nemendur við nýsköpun og stofnun fyrirtækja og stefnumótun fyrir fyrirtæki með margvíslega starfsemi. Í lagadeild æfa nemendur sig í málflutningi og nemendur í tölvunarfræðideild hafa val um að þróa tölvuleiki og Python-forritun, svo dæmi séu nefnd.

Nýsköpun og stofnun fyrirtækja

Stærsta þriggja vikna námskeiðið er Nýsköpun og stofnun fyrirtækja, þar sem nemendur í grunnnámi í lagadeild, tækni- og verkfræðideild og viðskiptadeild sitja á fyrsta ári námskeiðið og verða að finna viðskiptahugmynd og gera viðskiptaáætlun. Nemendum í tölvunarfræðideild býðst einnig að sækja námskeiðið í vali. Nemendur HR kynnast því nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, gerð viðskiptaáætlunar og þverfaglegri samvinnu strax í upphafi námsins.

Myndband um Nýsköpun og stofnun fyrirtækja vorið 2016

 

Námskeiðið veitir nemendum þekkingu sem nýtist þegar út í atvinnulífið er komið og hæfni sem er til þess fallin að skapa störf í samfélaginu um leið og stofnað er til rekstrar. Þeir kynna verkefnið reglulega með svokölluðum lyftukynningum þar sem ein mínúta gefst til að þess að „selja“ hugmyndina hugsanlegum fjárfestum. Einnig gera teymin frumeintak af nýju vörunni til að fá enn meiri reynslu af því að gera hugmynd að veruleika. Nemendur þurfa ennfremur að sýna fram á að hugmyndin skili hagnaði.