Fréttir eftir árum


Fréttir

Andlega fatlaðir einstaklingar verða frekar fyrir kynferðisofbeldi en líkamlega fatlaðir

25.5.2016

Á málþingi sem haldið var á vegum lagadeildar HR í gær komu fram niðurstöður rannsóknar á dómum héraðsdóma og Hæstaréttar vegna kynferðisbrota í tilvikum þar sem þolendur voru fatlaðir. 

Rannsóknin var unnin af Vigdísi Gunnarsdóttur, meistaranema í lögfræði við lagadeild HR, en leiðbeinandi hennarvar Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við deildina. Málþingið hafði yfirskriftina Fatlaðir þolendur kynferðisbrota og var haldið í samstarfi við Ákærendafélagið, Barnahús og Stígamót. 

 

Svala Ísfeld Ólafsdóttir stendur í pontu á málþinginu

Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, flytur erindi sitt.
Svala fjallaði um niðurstöður rannsóknarinnar í erindinu „Rannsókn á íslenskum dómum vegna kynferðisbrota gegn fötluðum þolendum“. Dómar frá árunum 1920-2012 voru skoðaðir og tóku þeir til brota þar sem ákært var fyrir brot gegn 194. eða 197. grein hegningarlaga og þar sem þolandi var líkamlega eða andlega fatlaður. Einnig var leitað í dómum þar sem ákært var fyrir kynferðsibrot með orðum eins og  „fatlaður“ og „vangefinn“. 

Með þessum aðferðum fundust fimmtíu dómar. 32 konur voru þolendur en karlar 9, í 82% tilvika var sá sem brotið var á andlega fatlaður en í undir 10% tilvika var brotaþoli líkamlega fatlaður. 

Á málþinginu, sem var vel sótt, hélt dr. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu erindi um alþjóðaskuldbindingar um vernd fatlaðra gegn kynferðisofbeldi. Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent við sálfræðisvið HR, fjallaði um kynferðisofbeldi í lífi heyrnarlausra á Íslandi og Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir, rannsakandi við Félagsvísindastofnun og  Rannsóknarsetur í  fötlunarfræðum við HÍ, hélt erindi sitt „Íslenskar rannsóknir á ofbeldi gegn fötluðum konum“.

Að loknu stuttu kaffihléi voru flutt fjögur erindi í viðbót. Embla Guðrún Ágústsdóttir, talskona Tabú, fjallaði um áhrif og afleiðingar margþættrar mismununar, Helga Baldvins- og Bjargardóttir lögfræðingur, þroskaþjálfi og sérstakur ráðgjafi Stígamóta fyrir fatlað fólk greindi frá aðstoð samtakanna við fatlaða þolendur kynferðisbrota og Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, fjallaði um börn með fötlun í Barnahúsi. Að lokum hélt Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, erindi um rannsókn og saksókn kynferðisbrota gegn fötluðu fólki. Fundarstjóri var Benedikt Bogason, dómari við Hæstarétt Íslands.