Fréttir eftir árum


Fréttir

Fengu að spreyta sig hjá framsæknustu fyrirtækjum landsins

20.5.2021

Nemendur í starfsnámi verkfræðideildar kynntu verkefni sín í gær, miðvikudag. Alls voru það 29 nemar sem eru að klára þriðja ár í BSc-námi eða fyrsta ár í meistaranámi. Starfsnámið fór fram núna á vorönn.

Nemendur eru í starfsnámi hjá ólíkum fyrirtækjum og eins og gefur að skilja eru verkefnin því afar fjölbreytt. Eitt verkefnið var að vinna við innleiðingu sjálfvirkra róbota fyrir Marel, annað að aðstoða við gerð viðamikillar skýrslu fyrir fjárfestingarfyrirtækið Alfa Framtak og enn annað fól í sér gagnasöfnun fyrir efnisval í gervihné Össurar. 

Brautir í verkfræði við HR eru níu þannig að flestir ættu að geta fundið sína réttu verkfræðihillu. Jafnframt er hægt að sníða sína eigin verkfræðibraut eftir áhugasviði.

Verkfræðinemi stendur við skilrúm í SólinniNemendur kynntu veggspjöld í Sólinni þar sem verkefnin voru sett fram með myndrænum hætti.

Kynningin var opin öllum áhugasömum og aðstandendur nemenda létu sig ekki vanta til að skoða betur hver viðfangsefni nemendanna hafa verið á síðustu önn.

Hópurinn samanstendur af nemendum í rekstrar-, fjármála-, hátækni-, heilbrigðis- og vélaverkfræði við HR. Árlega sendir deildin um 30-50 nemendur í starfsnám víða í atvinnulífinu. Að sögn verkefnastjóra verkfræðideildar kom það skemmtilega á óvart hversu vel það gekk að koma nemendum fyrir í starfsnámi í vetur, þrátt fyrir covid, en nánast allir sem sóttust eftir starfsnámi fengu starfsnám.

Verkfræðideild HR er með öflugt starfsnám og samninga við um 40 fyrirtæki. Nemendur velja hvort þeir taki 6 ECTS eða 12 ECTS í starfsnámi en starfsnámið er ekki skylda. Það er líka hægt að taka val, til dæmis úr öðrum deildum.

Mennta- og menningarmálaráðherra heldur ræðuLilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði nemendur og gesti. 

Brautir í verkfræði við HR:

https://www.ru.is/namid/namsyfirlit/verkfraedi

Fyrirtæki sem voru með verkfræðinema HR í starfsnámi á vorönn 2021:

Air Atlanta
Alfa Framtak
Arion banki
deCODE
EFLA Verkfræðistofa
Grensás
Íslensk Erfðagreining (deCODE genetics)
KPMG
Landspítalinn
Marel
Össur
Sea Data Center
Stjörnu-Oddi
Yggdrasill Carbon