Fréttir eftir árum


Fréttir

Fimm manneskjur og hundur

David Erik Molberg hjá máltæknisprotanum Tiro

25.4.2022

David Erik Mollberg útskrifaðist með meistaragráðu í máltækni vorið 2021. Sumarið eftir útskrift starfaði hann í Mál- og raddtæknistofu HR við rannsóknir og hóf síðan störf hjá sprotafyrirtækinu Tiro er sérhæfir sig í máltækni.

„Við erum 5 manna teymi – 6 ef maður telur með hundinn minn sem fær oft að koma með í vinnuna – á lítilli skrifstofu í Skipholti þar sem við búum til lausnir með íslenskri talgreiningu og talgervingu. Ég er um þessar mundir að uppfæra talgreininn sem er notaður til þess að rita niður ræður á Alþingi.“

MicrosoftTeams-image-8-_1650640433943

David Erik Molberg og skrifstofuhundurinn Lotta

 

David segir að líkt og með allar góðar ákvarðanir sem hann hafi tekið hafi námsvalið verið tilviljunum háð. Hann sá auglýsingu hjá kunningja sem var að leita að nemum í sumarstarf hjá Deloitte. Verkefnið gekk m.a. út á að kenna vélmenninu Deloitte íslensku en verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og unnið í samvinnu við HR og Almannaróm. Þegar David, sem var þá tiltölulega nýútskrifaður með BSc í rekstrarverkfræði, bauðst starfið taldi hann sig færan í flestan sjó og þáði boðið.

„Ég komst í raun ekki að því fyrr en lang leiðina inn í sumarið að verkefnið snerist um það sem kallast máltækni og að maður gæti menntað sig í því. Ég hafði notið þess mjög að vinna að þessu verkefni og var ánægður að heyra af þessu meistaranámi. Hins vegar var ég mjög hikandi við að sækja um þar sem ég þekkti engan sem hafði farið í þetta nám né vissi yfir höfuð hvað maður myndi gera með svona gráðu. Ég velti m.a. fyrir mér hvort maður þyrfti að vera góður í málfræði en það vildi til að máltækni er mjög stórt svið erlendis þannig að ég gat lesið mér mikið til. Smám saman sá ég að námið tikkaði í öll boxin hjá mér en ég vildi vinna með gögn, læra að beita stórum gagnasöfnum, setja fram og læra betur inná forritun með gögnum, færa mig inn á gervigreindarsviðið og vera með gráðu sem gæti veitt mér tækifæri til að starfa í öðrum löndum. Þremur dögum áður en haustönn hófst skráði ég mig því námið og það reyndist algjör snilld,“ segir David.

Í náminu hafi hann fengið mörg tækifæri til þess að vinna spennandi verkefni og grúska í ýmsu. Námið hafi verið vel uppbyggt en um leið sveigjanlegt og hægt að aðlaga það áhugasviði hvers og eins. Hann nefnir einnig að allir í tölvunarfræðideildinni séu með vinnuaðstöðu á sama svæðinu og þannig kynnist fólk þvert yfir deildina.

„Það sem er sérstaklega skemmtilegt við máltækni, sér í lagi ef maður hefur áhuga að forrita og vinna með gögn, er hvað það er skemmtilegt að vinna með tungumálið okkar. Þannig að þegar maður tekur eitthvað stórt gagnasett, býr til líkan og væntir niðurstöðu þá er hún skiljanleg þar sem við þekkjum tungumálið okkar. Máltækni er því sérstaklega góð leið til þess að læra á gervigreind, gagnavinnslu og líkanagerð þar sem það er svo mannlegt viðfangsefni,“ segir David.

Hann segir það einnig hafa komið sér skemmtilega á óvart hve mörg tækifæri gefist til að vinna með íslenskuna. Íslenska tungumálið hafi staðið höllum fæti hvað varðar gagnasöfn og lausnir sem eru í boði en það hafi breyst til hins betra. Þá sé mjög skemmtilegt að vera jafnvel fyrstur til að heimfæra einhverja aðferð sem sé vitað að virki fyrir önnur tungumál yfir á íslensku.

Spurður hvort David mæli með meistaranámi í gervigreind- og máltækni segir hann einfaldlega: Námið er spennandi, vinnuaðstaðan er frábær og það er frítt kaffi. Hvað meira vill maður?

Meistaranám í gervigreind og máltækni við Háskólann í Reykjavík veitir nemendum eftirsótta sérhæfingu til að starfa á þessu sviði, hvort heldur á íslenskum eða alþjóðlegum vettvangi. Námið er þverfaglegt og lýtur annars vegar að sjálfstæðum rannsóknum og hins vegar að þróun hugbúnaðar og lausna sem geta unnið með og skilið náttúruleg tungumál.

Umsóknarfrestur 2022 er til 5. júní næstkomandi.

Nánar um námið á www.ru.is.