Fjártækni og áhrifin á fjármálaumhverfið
Fjármálaheimurinn er að breytast ört ekki síst vegna fjártæknilausna (FinTech) sem brjóta upp hefðbundið fjármálaumhverfi. Fjártækni miðar m.a. að því að veita notendum betri þjónustu, einfalda greiðslukerfi og auka gagnsæi.
Dæmi um fjártæknilausnir eru ýmis greiðslukerfi á netinu eins og PayPal, greiðsluöpp eins og Aur og Kass, fjáröflunarsíður eins og KarolinaFund og Kickstarter, bitcoin og bálkakeðjur (e. blockchain), gervigreindarhugbúnaður sem er notaður við ákvörðunartöku í verðbréfaviðskiptum, hugbúnaður fyrir heimilisbókhald og margt fleira. Möguleikarnir eru margir og þetta veltur upp spurningum um hvort einhver sú þjónusta sem við höfum vanist í fjármálum og bakvinnsla muni heyra sögunni til.
Nýjungar í fjártækni bjóða upp á að greiða í posum með símanum.
Öryggi númer eitt, tvö og þrjú
Patrice Letourneau, viðskiptastjóri Fjártækni (Strategic Account Manager Fintech) hjá Amazon Web Services (AWS) fyrir Norðurlöndin og Balkanskaga, hélt erindi nýlega í HR um framtíð fjármála. Hann sagði okkur vera að upplifa spennandi tíma á þessu sviði, fjártækni væri að þroskast heilmikið og væri sífellt að vera tengdari hinu hefðbundna vistkerfi fjármálaumhverfisins. Mestu máli skipti í framþróun fjártæknilausna að þær séu opnar, auðveldar í notkun, snjallvæddar með aðstoð gervigreindar og umfram allt öruggar.
Opinn hugbúnaður er forsenda
Patrice sagði vöxtinn í greininni ekki síst mega þakka opnum viðmótum sem forritarar geta nýtt í sínum lausnum (open API - Application Programming Interface), en vel skilgreind forritunarviðmót á opin gagnasöfn eru afar dýrmæt þegar nýr hugbúnaður er þróaður og í mjög mörgum tilvikum forsenda þess að hægt sé að smíða hinar ýmsu netlausnir.
Það kom fram í máli hans að það væri mikilvægt fyrir fyrirtæki eins og hans, AWS, að styðja við nýjungar á sviði fjártækni. Það gerir fyrirtækið með því að bjóða upp á nýja möguleika fyrir fjártæknifyrirtæki sem ýtt geta undir frekari nýsköpun og þróun/prófun á upplifun notenda.
Fjártækni í HR
Það var Fjártæknisetur HR – þverfaglegt rannsóknarsetur á sviði fjártækni – sem stóð að viðburðinum en nemendur við HR geta valið fjártækni sem áhersluleið í námi við tölvunarfræðideild.