Fréttir eftir árum


Fréttir

Fjölbreytt úrval sumarnámskeiða

29.5.2020

Hefur þig alltaf langað að prófa forritun? Langar þig að læra grunnatriði í mannauðsstjórnun? Viltu auka færnina í áætlanagerð?

Háskólinn í Reykjavík hefur skipulagt sumardagskrá með námskeiðum fyrir háskólanema og almenning. Í sumarnámskeiðunum, sem flest hefjast í júní, geta háskólanemar lokið námskeiðum til eininga og nemendur HR hlotið margvíslegan undirbúning fyrir námið í haust. 

Þar að auki er fjöldi námskeiða í boði fyrir almenning til að kynnast nýjum viðfangsefnum og bæta færni sína á ýmsum sviðum. Námskeiðin eru hluti af átaki háskólanna og stjórnvalda til að tryggja nemendum viðfangsefni við hæfi í sumar. 

Fyrir almenning

Námskeið sem standa öllum til boða eru til dæmis lögfræði fyrir atvinnulífið, kennsla á hönnunarforrit eins og Revit, Inventor og SolidWorks, grunnatriði mannauðsstjórnunar, greining gagna og stafræn markaðssetning. Mörg námskeiðanna eru á vegum Opna háskólans í HR sem veitir símenntun fyrir einstaklinga í atvinnulífinu. Eitt þeirra námskeiða fjallar til dæmis um markaðssetingu í Covid-kreppu.

Fyrir háskólanema

Nemendur HR geta lokið námskeiðum sem styrkir þá í náminu, eins og í stærðfræði og eðlisfræði, þeir geta lokið verklegu námi, lært á forritun með Python og aukið lagaþekkinguna. Einnig eru undirbúningsnámskeið í boði fyrir þá sem hefja háskólanám í haust. Hluti námskeiðanna veitir einingar, bæði fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík og annarra háskóla. 

Umsóknir

Á vefsíðunni hr.is/sumarnamskeid er hægt að skoða framboðið sumarnámskeiða í HR. Námskeiðin eru fjármögnuð af stjórnvöldum og aðeins þarf að greiða 3.000 króna staðfestingargjald fyrir hvert námskeið. Lánasjóður íslenskra námsmanna veitir námslán fyrir námskeið sem gefa einingar. Mörg námskeiðanna eru kennd í blöndu af fjarnámi og staðarnámi.