Fjöldi gesta sótti HR heim á Háskóladaginn
Hinn árlegi Háskóladagur var haldinn síðasta laugardag hér í Reykjavík í húsnæði Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Fjöldi gesta sótti HR heim á Háskóladaginn og kynnti sér námsframboð og skoðaði ýmis verkefni nemenda. Á Háskóladeginum geta framhaldsskólanemar og almenningur spjallað við nemendur og kennara um það háskólanám sem stendur til boða.
Á Háskóladeginum gefa nemendur upplýsingar og ráð til væntanlegra háskólanema
Nýjung í dagskrá Háskólans í Reykjavík þetta árið voru opnir tímar í grunnnámi, þar sem áhugasamir gátu prófað að sitja í kennslustund í því fagi sem mestan áhuga vekur. Auk þess voru haldnar sérstakar kynningar á námsbrautum í meistaranámi við allar deildir.
Fyrir yngstu kynslóðina var Skema með opið hús þar sem börn, unglingar og fullorðnir litu við og gátu spreytt sig við að byggja Háskólann í Reykjavík í Minecraft. Farið var í skoðunarferðir um rannsóknastofur í kjallara og húsnæðið allt.
Á næstu tveimur vikum fer Háskóladagurinn út um allt land. Dagskrána má sjá hér:
- 7. mars kl. 13:00 - 15:00 í Fjölbrautaskóla Suðurnesja
- 9. mars kl. 11:00 - 13:00 í Menntaskólanum á Ísafirði
- 10. mars kl. 10:00 - 12:00 í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi
- 15. mars kl. 11:00 - 13:00 í Menntaskólanum á Egilsstöðum
- 16. mars kl. 9:30 - 11:00 í Menntaskólanum á Akureyri og kl. 12:30 - 14:00 í Verkmenntaskólanum á Akureyri
- 20. mars kl. 10:00 - 12:00 í Fjölbrautaskóla Vestmannaeyja
- 29. mars kl. 10:10 - 12:00 í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi