Fréttir eftir árum


Fréttir

Fjölmenni á Tæknidegi fjölskyldunnar í Neskaupstað

12.10.2017

Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í fimmta sinn laugardaginn 7. október 2017 í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Háskólinn í Reykjavík tók að venju þátt í glæsilegri dagskrá en það voru /sys/tur og Skema í HR þetta árið, sem buðu gestum að prófa að forrita og nota hið stórskemmtilega Makey Makey.

/sys/tur er nemendafélag innan tölvunarfræðideildar HR sem hefur meðal annars það að markmiði að fjölga konum í upplýsingatækni. Skema í HR býður upp á kennslu fyrir 4-16 ára börn og unglinga í upplýsingatækni. Básar /sys/tra og Skema voru umsetnir fyrir austan og dagurinn var í það heila mjög vel sóttur. Fjöldi fyrirtækja á Austurlandi sýndi tæknilausnir og nýsköpun, til dæmis austfirskan bjór, þrívíddarprentun í Fab Lab á Austurlandi og austfirsk byssuskefti. Þá var Ævar vísindamaður á staðnum og sló í gegn hjá yngstu aldurshópunum eins og hans er von og vísa.

Ungir drengir sitja við borð og eru spenntir í spjaldtölvumYngsta kynslóðin kynnir sér spennandi heim forritunar.

Með Tæknidegi fjölskyldunnar er vakin athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda og þau fjölbreyttu störf sem tengjast þessum greinum á Austurlandi. Dagurinn var haldinn í fyrsta sinn árið 2013 sem liður í liður í verkefni sem snéri að eflingu menntasamfélags á Austurlandi. Háskólinn í Reykjavík stýrði því verkefni sem var styrkt af Samfélagssjóði Alcoa og voru styrkþegarnir auk HR, Þekkingarnet Austurlands (nú Austurbrú) og Verkmenntaskóli Austurlands.

Fyrsti tæknidagurinn tókst mjög vel og ákváðu Verkmenntaskólinn og Austurbrú að endurtaka leikinn. Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í fjórða sinn laugardaginn 15. október 2016 og skifuðu um 1000 gestir í gestabækur dagsins. Styrktaraðilar í ár eru Uppbyggingarsjóður Austurlands, Síldarvinnslan, Alcoa Fjarðaál, Fjarðabyggð og Air Iceland Connect.