Fréttir eftir árum


Fréttir

Viðurkenningar veittar og nýr kappakstursbíll sýndur á Tæknideginum

15.5.2017

Tækni- og verkfræðideild heldur árlega Tæknidag þar sem nemendur kynna afrakstur verklegra og hagnýtra námskeiða. Dagurinn var haldinn þann 12. maí sl. Eins og fyrri ár var afmælisárgöngum tæknifræðinga boðið sérstaklega en margir þeirra útskrifuðust frá Tækniskóla Íslands, síðar Tækniháskóla Íslands, sem sameinaðist Háskólanum í Reykjavík árið 2005.

Taeknidagurinn2017_2Viðurkenningar fyrir lokaverkefni í tæknifræði

Kristjana Kjartansdóttir, sem situr í stjórn Verkfræðingafélags Íslands, veitti viðurkenningar fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tæknifræði fyrir hönd Menntamálanefndar VFÍ. Guðrún A. Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar, bað gesti velkomna og ávarpaði afmælisárganga.

Nemendur sem hlutu viðurkenningar voru:

  • Davíð Freyr Jónsson, rafmagnstæknifræði: Multi-channel microphone system for sound localization and beamforming

  • Jón Bjarni Bjarnason, rafmagnstæknifræði: Computer vision system to detect salmon deformity

  • Óskar Kúld Pétursson, vél- og orkutæknifræði: Uprights, wheel hubs and brake system for a new Formula Student race car

Taeknidagurinn2017_1Jón Bjarni Bjarnason kynnir verðlaunaverkefni sitt í rafmagnstæknifræði.

Nýr formúlubíll og rafknúið hjólabretti

Nemendur sýndu verkefni sín á göngum HR og í skólastofum. Þar mátti sjá meðal annars nýjan kappakstursbíl sem keppa mun í Formula Student-keppninni í sumar. Nemendur tækni- og verkfræðideildar sjá um hönnun og gerð bílsins.  Sýnd var afl- og nýtnimæling á díselvél sem gengur fyrir mismunandi eldsneyti t.d. dísel, matarolíu, notaðri steikingarfeiti, repjuolíu og fleiru. Nemendur flökkuðu á milli á rafknúnu hjólabretti sem þeir höfðu smíðað sjálfir. Auk þess voru til sýnis róbótabílar, fiskflokkunarkerfi, aflmælibúnaður fyrir Tesla túrbínu, steinaklemma og veltibúnaður fyrir smágröfu.

Taeknidagurinn2017_3Team Sleipnir afhjúpar nýjan kappakstursbíl.

Í lok dags var haldin móttaka fyrir afmælisárganga tæknifræðinga, nemendur og kennara.