Fréttir eftir árum


Fréttir

Fjörugar umræður um stjórnarskrá Íslands

9.10.2017

Lagadeild Háskólans í Reykjavík stóð fyrir hátíðarmálþingi undir yfirskriftinni Stjórnarskráin í stormi samfélagsins í dag, föstudaginn 6. október. Málþingið var haldið í tengslum við útgáfu Bókaútgáfunnar Codex á afmælisriti til heiðurs Jóni Steinari Gunnlaugssyni, hæstaréttarlögmanni, sjötugum.

Til umræðu var stjórnarskrá Íslands frá þremur mismunandi sjónarhornum. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti erindið „Ákvæði stjórnarskrár um forseta Íslands - nýleg sjónarmið og álitamál“, þar sem hann fór yfir söguna og tók til hversu margir hafa bent á nauðsyn þess að endurskoða ákvæði stjórnarskrárinnar sem kveða á um hlutverk forsetans. Forseti mælti fyrir því að hlutverk embættisins yrði skýrt betur en það væri undir vilja þjóðarinnar komið og í höndum þingheims að ráðast í þær breytingar.

Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild HR, tók næstur til máls og flutti erindi sitt „Lýðræði og lagasetning í ljósi umræðu um uppreist æru.“ Þar fjallaði hann um nýlegar breytingar á lögum um uppreist æru og sagði það vera víðsjárvert að fylgja um of áliti almennings við lagasetningar eða breytingar á lögum. Að lokum fjallaði Katrín Oddsdóttir, lögmaður, í erindi sínu „Ný stjórnarskrá - ný von“um sögu íslensku stjórnarskrárinnar og mikilvægi þess að taka frumvarp að lögum um nýja stjórnarskrá til umræðu á Alþingi. Hún sagði það myndu vera góða gjöf frá þjóðinni til sjálfrar sín að lögfesta nýja stjórnarskrá á 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018.

Málþingið var mjög vel sótt og bekkurinn þétt setinn. Að loknum erindum voru fyrirspurnir úr sal og umræður.

Fyrirlesarar sitja í röð við langt borð í stofu M103Frá vinstri: Katrín Oddsdóttir, Arnar Þór Jónsson, Guðni Th. Jóhannesson og Heimir Örn Herbertsson, sérfræðingur við lagadeild HR og fundarstjóri.