Fréttir eftir árum


Fréttir

Forseti Íslands veltir fyrir sér ákvæði um synjunarvald í nýju Tímariti Lögréttu

8.3.2017

Synjunarvald og breytingar á hlutverki forseta

Í nýútkomnu Tímariti Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík, mælir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, með nýju stjórnarskrárákvæði um vald forseta til að synja lögum frá Alþingi staðfestingar. Þetta gerir hann í viðtali við tímaritið en þar segir hann jafnframt að ekki dugi að forseti fari eftir „heimatilbúnum reglum eða viðmiðum“ sem taki sífelldum breytingum. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, situr í stól á Bessastöðum og horfir í myndavélinaEinnig sé vert að ræða hvort synjunarvald eigi við í ríki þar sem fulltrúalýðræði sé undirstaða stjórnskipunar. Í viðtalinu svarar forseti einnig spurningum um aðrar breytingar sem hann telur rétt að gera á stjórnarskránni og hlutverki stjórnarskrárgjafans, fólksins í landinu, svo að fátt eitt sé nefnt.

Í tímaritinu er jafnframt grein eftir Pál Þórhallsson, skrifstofustjóra löggjafarmála í forsætisráðuneyti og sérfræðing við lagadeild HR, sem ber titilinn „Hvernig förum við að því að breyta stjórnarskránni?“ Þar fjallar hann auk annars um hugsanlegar breytingar á hlutverki forsetans.

Um Tímarit Lögréttu

Tímarit Lögréttu er samstarf laganema og kennara við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Með útgáfu tímaritsins er leitast við að bjóða fram vettvang fyrir vandaðar fræðigreinar um lög og rétt. Í hverju blaði er lögð áhersla á ákveðið umræðuefni. Þetta árið var viðfangsefnið breytingar á stjórnarskrá. Tímarit Lögréttu var fyrst gefið út árið 2004 en það er fyrsta íslenska fræðiritið á sviði lögfræði sem er ritrýnt frá upphafi.

Aðfararorð Tímarits Lögréttu skrifar Arnar Þór Jónsson, lektor við HR og ritstjóri tímaritsins. Að þessu sinni fjallar hann um nauðsyn þess að leggja rækt við félagsleg tengsl manna og þau viðmið um gagnkvæmni og traust sem þessi tengsl ala af sér svo að forðast megi samfélagslegan siðbrest.

Meðal efnis þetta árið er jafnframt eftirfarandi:

  • Guðmundur Sigurðsson, prófessor við lagadeild HR, skrifar um slysahugtakið í vátryggingarrétti.
  • Kári Hólmar Ragnarsson, héraðsdómslögmaður hjá Rétti og doktorsnemi við Harvard-háskóla, ritar grein sem ber heitið „Verjandi að eigin vali“.
  • Dr. Bjarni Már Magnússon, dósent við lagadeild HR, tekur sömuleiðis fyrir mál, sem er ofarlega á baugi, í grein sem nefnist „Lögsögulögvilla og miðlínumisskilningur“.
  • Yfirlitsgrein tileinkuð Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni eftir Birki Má Árnason, nema við lagadeild HR, en Ragnar átti fyrir skemmstu hálfrar aldar starfsafmæli sem málflytjandi við Hæstarétt Íslands.

Ritstjórn skipa Arnar Þór Jónsson, Eiríkur Elís Þorláksson, lektor við lagadeild HR, Sigríður Árnadóttir saksóknarfulltrúi, Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, og Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR.

Útgáfunefnd af hálfu laganema skipa Diljá Helgadóttir útgáfustjóri, Ásta Magnúsdóttir Njarðvík, Hilma Ósk Hilmarsdóttir og Theodóra Fanndal Torfadóttir, en Þór Jónsson hafði framkvæmdastjórn útgáfunnar með höndum.

Í heiðursritnefnd Tímarits Lögréttu sitja Bryndís Hlöðversdóttir, Davíð Þór Björgvinsson, Guðmundur Alfreðsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jakob Þ. Möller, Jóhann Hjartarson, Ragnar Aðalsteinsson, Ragnheiður Harðardóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Sigríður Friðjónsdóttir og Símon Sigvaldason.

Sækja má um áskrift á netfanginu askrift@logretta.is

 Myndin sýnir forsíðu Tímarits Lögréttu