Fréttir eftir árum


Fréttir

Fóru á stærstu sjávarútvegssýningu í N-Ameríku

29.3.2016

„Það var gaman að sjá hversu íslenskur sjávarútvegur stendur framarlega í nýsköpun og sjálfbærni og hvað við erum í raun góð fyrirmynd í greininni,“ segir Hjálmar Óskarsson sem er meðlimur sigurliðsins í Hnakkaþoni HR og SFS árið 2016. Liðið fór fyrir stuttu til Bandaríkjanna og var ferðin hluti verðlauna sem liðið fékk fyrir sigur í keppninni.

Það eru þau Guðjón Smári Guðmundsson, Ingi Svavarsson, Hjálmar Óskarsson, Margrét Lilja Hjaltadóttir og Hrönn Vilhjálmsdóttir sem skipa vinningslið Hnakkaþonsins í ár. Þau koma úr ýmsum áttum innan HR: úr vél- og orkutæknifræði, viðskiptafræði og lögfræði. Fjögur þeirra hófu námið í HR í frumgreinadeild.

„Við heimsóttum meðal annars New England Ocean Cluster í Portland í Maine-fylki, þar sem verið er að byggja upp sjávarklasa að íslenskri fyrirmynd. Þar var mikil nýsköpunarorka sem sveif yfir vötnum og virkilega áhugavert að tala við starfsfólkið.“

Liðið fór einnig á stærstu sjávarútvegssýningu í Norður-Ameríku. „Þetta var risastórt, stærsta sýning sem ég hef nokkurn tímann farið á,“ segir Hjálmar. „Við lærðum ótal margt um þessa atvinnugrein, ekki síst hvað við stöndum vel að vígi á Íslandi, og erum í raun fyrirmynd annarra þjóða. Þannig er meðalnýting afla á heimsvísu um 35-40% en á Íslandi er hún 80%.“

Í tillögu liðsins í Hnakkaþoninu settu þau fram áætlun um hvernig Þorbjörn hf. í Grindavík geti aukið notkun rafmagns á línubátum og frystitogara félagsins og lögðu til að fyrirtækið yrði fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið hér á landi til að taka upp ISO14001 umhverfisstaðalinn.

Þess má geta að heimsókn liðsins var umfjöllunarefni bandarískrar sjónvarpsstöðvar, WCSH, sem tók stutt viðtal við Hjálmar. Umfjöllunina má sjá hér. 

Ingi Svavarsson, Margrét Lilja Hjaltadóttir, Hrönn Vilhjálmsdóttir, Hjálmar Óskarsson og Guðjón Smári Guðjónsson sem skipa vinningslið Hnakkaþonsins í ár.

Ingi Svavarsson, Margrét Lilja Hjaltadóttir, Hrönn Vilhjálmsdóttir, Hjálmar Óskarsson og Guðjón Smári Guðjónsson sem skipa vinningslið Hnakkaþonsins í ár. 

Um Hnakkaþon

Í Hnakkaþoni HR og SFS reyna nemendur HR með sér í lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Áskorun Hnakkaþonsins að þessu sinni varðaði eitt mikilvægasta viðfangsefni samtímans, loftslagsmál, í kjölfar tímamótasamkomulags ríkja heims í París á síðasta ári. Þátttakendur í Hnakkaþoninu fengu afhent ítarleg gögn um starfsemi Þorbjarnar hf. í Grindavík, sem dæmi um íslenskt útgerðarfyrirtæki. Alls skiluðu 12 lið inn fjölbreyttum tillögum.

Dómnefnd

Í dómnefnd Hnakkaþons 2016 sátu: Ari Kristinn Jónsson, rektor HR; Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair; Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips; Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar HR; Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands; Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar; Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri FESTU, Miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja og Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS.