Frábær uppfinning eða endalok mannkyns?
Eðlisfræðingurinn frægi, dr. Stephen Hawking, sagði eitt sinn að greindar vélar gætu orðið frábærasta uppfinning allra tíma — en hugsanlega líka þýtt endalok mannkyns. Á Gervigreindarhátíðinni 2014 var leitast við að svara því hvað sé framundan á þessu ört vaxandi sviði.
Þar var fjallað um undraheima vitvéla, framtíðarmöguleika sjálfvirkrar hátækni og áskoranir sem rannsakendur í fremstu röð á þessu sviði eru að fást við um þessar mundir. Það voru Gervigreindarsetur HR (cadia.ru.is) og Vitvélastofnun Íslands (iiim.is) sem stóðu að viðburðinum.
Hátæknihraðbraut með sprotafyrirtækjum
Á sérstökum fundi fyrir sprotafyrirtæki ræddu sérfræðingar Gervigreindarseturs og Vitvélastofnunar við fyrirtæki um samstarfsverkefni við atvinnuveginn og nýja möguleika á samstarfi við sprotafyrirtæki, en Vitvélastofnun Íslands mun setja af stað nýtt samstarfsprógramm í janúar 2015.
Sýning í Sólinni
Á sýningarbásum í Sólinni voru sýnd ýmis verkefni í gervigreind að fyrirlestrum loknum. Þar sýndu fyrirtæki, stór og smá, rannsóknir og afurðir þar sem fengist er við gervigreind. Dæmi um þau verkefni eru:
- Er hægt að skynja streitu eða álag í rödd fólks?
- Er hægt að tala íslensku við tölvu?
- Skipta fyrstu kynni vitveru og manneskju máli?
- Getur sýndarvera lært að vera útvarpsmanneskja?
- Er hægt að nota sýndarveruleika til að þróa mannvænni borg?
- Er hægt að læra íslensku af sýndarverum?
- Geta vélar flogið eins og fuglar?
- Skilja tölvur íslenskan texta?
- Geta vélmenni kannað dýpi sjávar sjálf og óstudd?