Fréttir eftir árum


Fréttir

Fjölbreytt fræðsla um heilahreysti og afleiðingar höfuðhögga í Heilaviku

18.3.2016

Kevin Pearce ræðir viðð nemendur og kennara við HR í SólinniKevin Pearce snjóbrettakappi kom og rabbaði við nemendur og kennara á Heilavikunni í Sólinni. Hann er staddur hérlendis til að halda fyrirlestur um reynslu sína af heilaskaða. 

Sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík, í samstarfi við námsbraut í heilbrigðisverkfræði og íþróttafræðisvið, stóð að kynningum og fyrirlestrum um heilann dagana 14. - 18. mars undir yfirskrifitinni Heilavika í HR. Markmiðið var að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi heilarannsókna og fræða almenning um heilann og heilahreysti. 

Fjölbreytt dagskrá um heilann

Á mánudag hélt María K. Jónsdóttir, taugasálfræðingur og dósent í sálfræði við HR fyrirlesturinn Heilahreysti og forvarnir og Axel F. Sigurðsson, hjartalæknir, hélt erindið Næring og heilahreysti. Á þriðjudag var nemendum og kennurum HR sýnd heimildarmyndin The Crash Reel sem fjallar um snjóbrettakappann Kevin Pearce sem hlaut alvarlegan heilaskaða í keppni og hefur síðan helgað líf sitt fyrirlestrum um heilaskaða og heilavernd. Kevin kom sjálfur við í HR og kynnti sér rannóknir nemenda. Á miðvikudag var opinn fyrirlestur á vegum Hugarfars, félags fólks með ákominn heilaskaða. Frummælendur voru Stefán Stefánsson, ritari og varaformaður Hugarfars, sem deildi reynslu sinni af heilaskaða og Dís Gylfadóttir, verkefnastjóri Hugarfars. Hún kynnti Höfuðhús - endurhæfingar- og fræðslumiðstöð fyrir fólk með heilaskaða.

20160317_150607_resized

Sýning í Sólinni

Heilaviku lauk svo í gær, fimmtudag, með sýningu í Sólinni. Þar kynntu nemendur í sálfræði, heilbrigðisverkfræði og íþróttafræði rannsóknir sínar og ýmsan annan fróðleik um heilann. Þar var hægt að fræðast um áhrif hreyfingar á heilahreysti, virkni og starfsemi heilans og hvað gerist þegar heilinn starfar ekki eðlilega. Sýnt var hvernig heilariti virkar og hvaða upplýsingum um heilann tækið getur hjálpað okkur að svara. 

Alþjóðleg heilavika

Viðburðurinn er í tilefni alþjóðlegrar heilaviku sem haldin er að tilstuðlan Dana Foundation í Bandaríkjunum. Þetta er í annað sinn sem heilavikan er haldin í HR en í 21. sinn sem hún er haldin erlendis.