Framhaldsskólanemar stýrðu verksmiðju með glæsibrag
Lið frá Verzlunarskóla Íslands hreppti sigurlaunin í Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna sem haldin var á vegum viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík í síðustu viku.
Þeir Arnaldur Þór Guðmundsson, Atli Snær Jóhannsson og Gísli Þór Gunnarsson báru sigur úr býtum eftir að hafa rekið súkkulaðiverksmiðju yfir fimm ára tímabil. Sú starfsemi var að sjálfsögðu búin til fyrir keppnina en reynt var að herma sem best eftir alvöru samkeppnisumhverfi. Fyrirkomulag keppninnar var á þá leið að lið sem samanstóðu af þremur til fjórum einstaklingum stýrðu fyrirtæki, í þessu tilfelli súkkulaðiverksmiðju, í ákveðinn tíma og kepptu sín á milli um að ná sem bestum árangri. Liðin þurftu að leysa margvísleg vandamál sem upp komu og skila góðum rekstri. Það var lið Borgarholtsskóla sem hafnaði í öðru sæti og annað lið frá Verzló sem hlaut þriðja sætið. Hver skóli mátti senda fleiri en eitt lið.
Markmið með keppninni er að kynna stjórnun fyrir nemendum í framhaldsskóla og hvetja þá til að gefa faginu gaum. Góð og ábyrg stjórnun er afar mikilvæg íslensku viðskiptalífi og samfélaginu öllu. Mikilvægur hluti af starfi stjórnenda er að taka ákvarðanir, bæði um atriði í starfsemi frá degi til dags og stærri ákvarðanir sem hafa áhrif á starfsemina til frambúðar.
Þetta var í annað sinn sem keppnin var haldin. Alls kepptu 24 lið frá 10 skólum og þeir keppendur sem voru utan höfuðborgarsvæðisins tóku þátt í gegnum fjarfundabúnað.
Efstu liðin þrjú. Þeir Arnaldur, Atli og Gísli standa fyrir miðju en þeir báru sigur úr býtum í keppninni í ár.
Úrslit
1. sæti: Verzlunarskóli Íslands
Arnaldur Þór Guðmundsson, Atli Snær Jóhannsson, Gísli Þór Gunnarsson.
2. sæti: Borgarholtsskóli
Adda Sólbjört Högnadóttir, Birna Sól Daníelsdóttir, Sannija Brunovska.
3. sæti: Borgarholtsskóli
Hnikarr Bjarmi Franklínsson, Anton Helgi Falkvard Traustason og Embla Líf Halldórsdóttir.
Eftirtalin fyrirtæki veittu verðlaun fyrir þrjú efstu sætin:
- Viðskiptaráð Íslands (Menntasjóður)
- Air Iceland Connect
- Reykjavík Escape