Fréttir eftir árum


Fréttir

Framkvæmd EES-samningsins á Íslandi og stjórnskipuleg álitamál

Bók byggð á doktorsrannsókn dr. Margrétar Einarsdóttur, prófessors við lagadeild, komin út

12.10.2020

Bókin „Framkvæmd EES-samningsins á Íslandi og stjórnskipuleg álitamál“ eftir dr. Margréti Einarsdóttur, prófessor í lagadeild, er nú komin út. Bókin byggir að hluta á doktorsrannsókn Margrétar sem ber heitið „Framkvæmd EES-samningsins af hálfu íslenska ríkisins: Upptaka afleiddrar löggjafar í EES-samninginn og innleiðing í íslenskan rétt.“ Margrét varði doktorsritgerð sína í desember 2019. 

Fyrri hluti hinnar núýtkomnu bókar fjallar um framkvæmd EES-samningsins, þ.e. upptöku löggjafar sem kemur frá stofnunum ESB upp í EES-samninginn og síðan innleiðingu löggjafarinnar í íslenskan rétt. Framkvæmd samningsins er viðamikið verkefni fyrir íslenska stjórnsýslu og löggjafarvald. Það kemur í hlut stjórnsýslunnar, í samvinnu við EFTA-skrifstofuna og hin EES/EFTA-ríkin að undirbúa upptöku löggjafar frá ESB upp í EES-samninginn. Þá er það verkefni stjórnsýslunnar, og eftir atvikum Alþingis, að innleiða löggjöfina í íslenskan rétt.

Mikið átak í innleiðingarmálum skilað sér

„Þessi framkvæmd hefur ekki alltaf gengið sem skyldi og var það meginmarkmiðið með doktorsrannsókn minni, sem bókin byggir að stórum hluta á, að greina þessa framkvæmd ítarlega og benda á leiðir til úrbóta. Frá því að ég hóf rannsóknina hefur ýmislegt verið fært til betri vegar. Þannig hefur til dæmis málsmeðferð á Alþingi verið einfölduð en þar voru miklar tafir sem skiluðu engum árangri. Nú er frekar lögð áhersla á að hafa samráð við Alþingi fyrr í ferlinu, þ.e. á meðan löggjöfin er enn í vinnslu hjá stofnunum ESB en þá eru meiri möguleiki til að hafa áhrif á löggjöfina. Þá var gert mikið átak í innleiðingarmálum sem hefur skilað sér,“ segir Margrét.

Rannsókn án hliðstæðu

Annað meginmarkmið rannsóknarinnar var að búa til efni um framkvæmd EES-samningsins sem sérfræðingar í íslenskri stjórnsýslu geti lesið sér til um og áttað sig þannig betur á þeim flóknu álitaefnum sem framkvæmdin felur í sér. „Engin sambærileg rannsókn hafði verið gerð áður og hef ég fengið gríðarlega sterk jákvæð viðbrögð við rannsókn minni bæði innan stjórnsýslunnar og frá Alþingi.“

Seinni hluti bókarinnar fjallar um stjórnskipuleg álitamál við framkvæmd EES-samningsins. Ekki er að finna í íslensku stjórnarskránni ákvæði sem sérstaklega heimilar framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Frá gildistöku EES-samningsins þann 1. janúar 1994 hafa í nokkur skipti komið upp flókin stjórnskipuleg álitamál varðandi það hvort tilteknar ESB-gerðir sem til stendur að taka upp í EES-samninginn standist ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Má hér nefna upptöku þriðja orkupakkans og fjármálalöggjafar ESB. Vísbendingar eru um að gerðum sem fela í sér slík stjórnskipuleg álitamál fari fjölgandi.