Fréttir eftir árum


Fréttir

Framtíðarsýn um verkfræðikennslu

Háskólar á Norðurlöndum deili með sér aðferðum og þekkingu

20.6.2022

Verkfræðideild Háskólans í Reykjavík tekur þátt í verkefni er kallast STEM skills and competences for the new generation of Nordic engineers. Grunngreinar í verkfræði eru svokallaðar STEM greinar sem stendur fyrir Science, Technology, Engineering og Mathematics. Verkefnið hlaut þriggja ára styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins árið 2018. 

Þátttakendur voru, fyrir utan Háskólann í Reykjavik, frá KTH (Kungliga Tekniska Hoegskolan) í Stokkhólmi, sem stýrði verkefninu, Álaborgarháskóla (Aau), Aalto háskólanum í Finnlandi (AALTO), NORDTEK (samstarfsnet 27 háskóla á Norðurlöndunum), Association of Nordic Engineers (ANE) og Háskólanum í Stafangri (UIS).

Lena-1

Markmið verkefnisins er að skapa nýja þekkingu á verkfræðimenntun til að styðja við nám og kennslu á Norðurlöndunum með því að draga saman, greina og koma á framfæri upplýsingum um menntun í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði (STEM) sem stuðlar að þróun í verkfræðikennslu. Lögð er áhersla á að að skoða innihald verkfræðináms og þær kennsluaðferðir sem eru notaðar og miðla nýjum hugmyndum um STEM menntun. Niðurstöður verkefnisins eru kynntar undir Nordic Engineering Hub

Dr. Lena Gumaelius, dósent við KTH í stokkhólmi leiðir rannsóknarhóp um verkfræðikennslu innan háskólasamfélaga. Hún heimsótti nýlega verkfræðideild HR og kynnti STEM verkefnið.

„Ég hef mikinn áhuga á því að við á Norðurlöndunum lærum hvert af öðru þegar kemur að verkfræðikennslu. Sem verkfræðingur og vísindamaður í mínu fagi fór ég fyrir nokkrum árum að vinna að skipulagningu þess að háskólar á Norðurlöndunum ynnu saman á þessu sviði. Styrkurinn liggur í því að við á Norðurlöndunum erum svipuð þegar kemur að menningu og viðhorfum og viljum t.a.m. öll geta aukið áhuga á STEM greinunum. Að sama skapi höfum við farið mismunandi leiðir að takmarkinu og til að mynda þróað með okkur bæði ólíkt verklag og ólík pólitísk sjónarmið. Ég tel því að við getum lært mikið hvert af öðru vegna þess að við skiljum hvert annað en höfum um leið farið mismunandi leiðir.”

Lena hefur unnið við Nordic Engineering Hub sem nú er einnig við að teygja anga sína á Balkanskagann. Í því samhengi hafa Lena og samstarfsfólk hennar unnið að því að taka viðtöl við kennara innan verkfræðideildar HR og fjögurra annara háskóla í jafn mörgum löndum. Hafa viðtölin sýnt bæði ákveðin líkindi og mun á háskólunum og sé HR t.a.m. framarlega í innleiðingu sjálfbærni í verkfræðikennslu.

„Við stöndum frammi fyrir því að stafræn þróun og aðrar álíka áskoranir muni umbylta kennslu. Rafræn kennsla hefur þegar breytt formi kennslu og eins að það sé samþykkt og viðurkennt að fólk fari aftur í háskóla af vinnumarkaði. Þannig verður í náinni framtíð líklegast ekki jafn mikilvægt að ljúka fimm ára samfelldu námi heldur frekar almennara að fólk fari í nám og á vinnumarkað til skiptis. Form menntunar er að breytast mjög hratt og því fylgir líka að við verðum að undirbúa kennara þannig að allir séu samferða á þessari vegferð.” 

Lesa má nánar um verkefnið í grein Ásrúnar Matthíasdóttur, lektors við Háskólann í Reykjavík á Heimasíðu Ský félags fyrir fólk og fyrirtæki í upplýsingatækni.