Fréttir eftir árum


Fréttir

Frjáls sala áfengis eykur álag á heilbrigðiskerfið

11.12.2015

Í nýrri bók sinni The Health of Populations: Beyond Medicine, fjallar dr. Jack James, prófessor við sálfræðisvið, um áherslur í heilbrigðisþjónustu. „Heilbrigðisþjónusta okkar í dag er að mestu leyti byggð á þeirri hugmynd að bæta megi heilsu fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma með framförum í læknavísindum. Við hugsum minna út í ávinninginn af því að beita löggjafarvaldi og félagslegu inngripi í lífi fólks,“ segir hann. 

„Það hlýst gríðarleg þjáning og kostnaður af umferðarslysum á heimsvísu. Segjum sem svo að einstaklingur lendi í slíku slysi. Möguleikar á bata eru mun meiri ef viðkomandi kemst strax undir læknishendur. Hér bjarga læknavísindin lífi fyrir framan augun á okkur og við sjáum töfra læknavísindanna með afar skýrum hætti. Þetta gæti fengið mann til að hugsa, mjög eðlilega, að læknavísindin séu besta aðferðin sem við höfum til að fást við umferðarslys og það ætti að fjárfesta þannig að við tryggjum besta aðgengi sem völ er á að heilbrigðisþjónustu.“ 

Jack_James1

Mikilvægt að koma í veg fyrir skaðann

Hann segir að það sé þó gagnlegt að líta á málin frá öðru sjónarhorni. „Við þurfum að skoða þá þætti sem orsaka slysin. Það er augljóst að það er aðeins örlítill hluti slysa sem rekja má til lífeðlisfræðilegra þátta. Næstum öll slys verða vegna hegðunar eins og hraðaksturs, ölvunaraksturs, farsímanotkunar, að nota ekki bílbeltið, þreytu og svo mætti lengi telja. Þetta eru atriði sem fremur aðveldlega má hafa áhrif á með löggjöf og ýmissi tækni til að stýra umferðinni. Í Svíþjóð er lægsta tíðni umferðarslysa og það sem hefur verið gert þar er hægt að gera næstum alls staðar. Þetta kæmi í veg fyrir milljónir dauðsfalla á hverju ári og margfalt fleiri meðsli á fólki. Það er ekkert sem læknavísindin búa yfir, eða munu búa yfir í framtíðinni, sem kemur nálægt því að ná sömu niðurstöðum.“

Hann segir þetta benda til þess að rökrétt sé að veita meiri fjármunum í forvarnir frekar en til hefbundinnar læknaþjónustu. Þetta sé þó ekki einfalt, því þegar tilfinningar eru í spilinu sé erfitt að líta á mannslíf sem hvert annað reikningsdæmi. „Þegar við sjáum lækni bjarga mannslífi eftir hræðilegt slys vakna afar sterkar tilfinningar eins og þakklæti og samúð. Við sjáum aftur á móti ekki þær aðstæður þar sem lífi hefur verið bjargað með öflugum forvörnum. Þetta eru svokölluð áhrif auðþekkjanlega fórnarlambsins (e. identifiable victim effect) eins og það er skilgreint í félagsfræðunum. Þessar tilfinningar geta haft það að verkum að við gerum ekki það sem er rökrétt og nauðsynlegt að gera til að koma í veg fyrir hörmungar.“

Að breyta hegðun getur bjargað lífum

Hann nefnir tíðni lífstílssjúkdóma sem dæmi um galla þess að að byggja heilbrigðisþjónustu fyrst og fremst á læknavísindum. „Á sjöunda áratugnum varaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, við því að á næstu áratugum myndi bresta á faraldur sjúkdóma sem smitast ekki, eins og krabbameins, hjartasjúkdóma, sykursýki og Alzheimers. Þessi faraldur er nú viðvarandi. Það hefði ekki gerst ef læknavísindin væru eins árangursrík og við teljum þau vera.“ Tekjuhá lönd merktu lægri tíðni hjartasjúkdóma á síðustu áratugum 20. aldar. Til dæmis voru 70.000 færri dauðsföll af sökum hjartasjúkdóma í Englandi á áratugunum eftir 1980 en spáð hafði verið. „Spurningin sem vaknar er, hverju má þakka þetta? Var það nýsköpun í læknavísindum? Nýjungar í læknisfræði spiluðu þarna inn í og gáfu einstaklingum fleiri æviár en björguðu aðeins 20% þessara lífa. Hin 80% eru sögð vera vegna lífsstílsbreytinga. Helst má þar nefna að fólk dró úr reykingum og breytti mataræði, til dæmis með meiri neyslu á grænmeti og ávöxtum, og minnkaði saltneyslu."

Er þá ábyrgðin öll á okkar herðum? Jack segir okkur vissulega þurfa að huga að eigin hegðun en bætt heilsufar borgaranna sé jafnframt á ábyrgð sveitarfélaga, borgar- og bæjarstjórna og ríkisstjórna. „Ef við tökum reykingar til dæmis þá geta einstaklingar vissulega tekið ákvörðun um að hætta. Við búum þó í samfélagi við annað fólk og tökum ákvarðanir sem byggðar eru á því hvað er á seyði í kringum okkur.  Ef ákveðin hegðun er algeng þar sem ég bý og vinn er líklegra að ég hegði mér á sama hátt. Þetta er ástæða þess að reykingabann á vinnustöðum hefur bætt heilsu fólks gríðarlega. Slík bönn hafa haft í för með sér breytingar á hegðun stórra hópa, frá því að samþykkja reykingar í það að gera þær að undantekningu.“  Tóbaksfyrirtækin börðust afar hart gegn slíkum bönnum og þau fengu sínu framgengt í Danmörku. „Þau notuðu rökin um frelsi einstaklingsins. Í Svíþjóð var annað uppi á teningnum og þveröfug stefna var tekin.“ Hvernig hefur þetta svo haft áhrif á heilsu borgaranna? „Dauðsföll vegna lungnasjúkdóma í Danmörku eru helmingi fleiri en í Svíþjóð og danskar konur eru í mestri hættu að látast úr lungnakrabbameini í Vestur-Evrópu. Þessar tvær þjóðir eru svipaðar út frá líffræðilegum þáttum, þannig að eini munurinn er þessi hegðun. Svo má alls ekki gleyma óbeinum reykingum, þær nefnilega skaða þá sem hafa valið að reykja ekki.“

Höldum sölu á áfengi í sama horfi

Miðað við það sem fram hefur komið er áhugavert að heyra skoðanir Jacks á hinu umdeilda  áfengissölufrumvarpi sem til umræðu hefur verið undanfarið. Eigum við að selja áfengi í matvöruverslunum? „Það á alls ekki að breyta núverandi lögum. Ef fólk vill taka upplýsta ákvörðun um málið sem er byggð á niðurstöðum rannsókna er þetta einfalt mál. Aukið aðgengi að áfengi þýðir einfaldlega fleiri sjúklinga með til dæmis skorpulifur og meira heimilisofbeldi.“ Hann nefnir dæmi. „Tíðni skorpulifrar hefur fjórfaldast í Bretlandi síðan meira frelsi var gefið í sölu og aðgengi að áfengi varð meira. Eins og með reykingarnar þá er sjónarmiðið það að verið sé að vernda frelsi einstaklingsins öfugt við forsjárhygguþjóðfélag (e. nanny state). Þetta eru innantóm orð sem eru bara notuð til að styðja málstað hagsmunaaðila og hafa ekkert með heilsu almennings að gera.“ Jack er harður á þessum punkti enda segir hann erfitt að mæla gegn vísindalegum niðurstöðum. „Samkvæmt núgildandi lögum geta Íslendingar með auðveldum hætti keypt áfengi og neytt þess, þannig að ég skil ekki tilganginn með því að breyta þessu fyrirkomulagi. Reyndar hafa Íslendingar tækfifæri til að sýna frumkvæði á heimsvísu með því að hafa gott aðgengi að áfengi sem jafnframt er háð ákveðnum, sanngjörnum takmörkunum. Að slaka á þessum skilyrðum leiðir aðeins til verra heilsufars hjá borgurunum og verri félagslegra og fjárhaglegra aðstæðna. Og það gildir fyrir alla, líka þá sem velja að drekka ekki áfengi.“

Jack James segir í bók sinni að besta leiðin til bættrar heilsu í heiminum í dag, miðað við allt sem fram hefur komið, sé að reyna að hafa áhrif á hegðun fólks. Það muni jafnframt spara pening í heilbrigðiskerfinu þegar fram í sækir. „Vísindin sýna að læknavísindin leysa ekki stór heilsufarsvandmál.“

Sjá meira um bókina  The Health of Populations: Beyond Medicine