Fréttir eftir árum


Fréttir

Fullt hús á ráðstefnum í HR um norðurslóðir og orkuöryggi

16.10.2015

Ráðstefna um orkuöryggi

Háskólinn í Reykjavík hélt tvær ráðstefnur í gær, fimmtudag, sem fjölluðu um málefni norðurslóða og orku- og umhverfismál í alþjóðlegu samhengi. Fyrirlesarar voru innlendir og erlendir sérfræðingar í þessum málaflokkum. Báðir viðburðirnir voru opnir almenningi og voru afar vel sóttir. 

Úthafið á norðurslóðum

Fyrir hádegi var á dagskrá ráðstefnan „Úthafið á norðurslóðum“ (Arctic High Seas). Þar ræddu forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, sendiherrar Bandaríkjanna, Kína, Noregs og Rússlands, Íslands - Norðurslóða, heimsþekktir sérfræðingar og fleiri um framtíð svæðisins. Meðal þess sem fram kom í máli fyrirlesara var mikilvægi þess að hafa hraðar hendur hvað varðar málefni Norður-Íshafsins en að afgreiðsla laga og reglna megi þó aldrei vera á kostnað góðrar samvinnu. Viðburðurinn var skipulagður í samstarfi við Arctic Options

Efni frá ráðstefnunni:

Orkuöryggi til framtíðar

Eftir hádegi var komið að orkumálunum með ráðstefnunni „Hvernig tryggjum við orkuöryggi til framtíðar?“ (Energy Security in the 21st Century). Fyrirlesarar voru sérfræðingar frá MIT, Harvard og Tufts háskólunum og Brookings-stofnuninni í Bandaríkjunum, HR, Landsvirkjun og Landsneti. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpaði ráðstefnuna. 

Kynnt var nýtt og viðamikið samstarfsverkefni MIT-háskólans, Landsvirkjunar, Landsnets og Orkustofnunar um orkuöryggi á Íslandi og um möguleika á lagningu sæstrengs til Bretlands, virkjun vindorku á Íslandi og hvort og hvernig þurfi að styrkja flutningskerfi raforku hér á landi. Ráðstefnan var haldinn í tengslum við Arctic Circle Assembly og var samstarfsverkefni HR, Landsvirkjunar og Landsnets.

Efni frá ráðstefnunni:

Vinnustofa með sérfræðingum

Í kjölfar ráðstefnunnar var haldin vinnustofa fyrir unga og upprennandi sérfræðinga í orkumálum (Energy Security Forum). Þar gafst tækifæri til að ræða málefni norðurslóða með tilliti til orkumála og alþjóðlegrar samvinnu við helstu sérfræðinga heims á þessu sviði, eins og dr. William Moomaw (Tufts-háskóla), dr. Charles Ebinger (Brookings Institution), dr. Ignacio Pérez Arriaga (MIT), dr. Friðrik Már Baldursson (HR), and Cristine Russell (Harvard).

Ráðstefna um orkuöryggi