Fulltrúar HR á fundi um sjálfbærni á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna
Fulltrúar Háskólans í Reykjavík sátu sérstakan afmælisfund Global Compact sáttmálans í sal Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þann 25. júní síðastliðinn. Fundurinn var haldinn í tilefni 15 ára afmælis Global Compact sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja en viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík er þátttakandi í PRME (Principles for Responsible Management Education) verkefni Sameinuðu Þjóðanna sem er hluti af Global Compact.
Forseti Allsherjarþingsins Sam Kutesa og aðalritari Sameinuðu Þjóðanna, Ban Ki-moon opnuðu fundinn sem sóttur var af meira en 1000 fulltrúum viðskiptalífs og viðskiptaháskóla úr öllum heimsálfum. Í opnunarræðu sinni lagði Ban Ki-moon áherslu á vaxandi hlutverk fyrirtækja í því að ná markmiðum um sjálfbærni á heimsvísu. Fjöldi annarra ræðumanna úr viðskiptalífi, háskólasamfélagi og alþjóðasamtökum fjallaði um samfélagsábyrgð og sagði frá verkefnum og áherslum sem styðja sjálfbærnimarkmið Sameinuðu Þjóðanna. Meðal þeirra voru forstjórar alþjóðlegu stórfyrirtækjanna Nestlé og Unilever.
Á fundinum kom vel fram að áhersla á samfélagslega ábyrgð er að verða sjálfsagður hluti af verkefnum stjórnenda og fyrirtækja, hvort sem um er að ræða stórfyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum vettvangi eða minni fyrirtæki sem starfa í einstökum löndum. Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík skrifaði undir viljayfirlýsingu PRME árið 2012 en með aðild að PRME hefur deildin skuldbundið sig til að mennta nemendur í samfélagsábyrgð, leggja áherslu á ábyrga stjórnun og hvetja til þess að atvinnulífið stundi ábyrga viðskiptahætti.