Fréttir eftir árum


Fréttir

Í flokki með liðum frá KTH og Oxford

24.11.2016

Þeir Arnar Bjarni Arnarson, Bjarki Ágúst Guðmundsson og Unnar Freyr Erlendsson náðu gríðarlega góðum árangri í alþjóðlegri forritunarkeppni háskóla nýlega en þeir höfnuðu í fimmta sæti af 114. Þetta er besti árangur liðs frá HR hingað til í þessari keppni, en NWERC er svæðiskeppni Norður-Evrópu fyrir ACM-keppnina sem er aðalkeppnin. Í henni mætast háskólar úr öllum heimshlutum. Í NWERC-keppninni mætast lið frá  háskólum í Belgíu, Lúxemborg, Bretlandi, Írlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Þýskalandi og Hollandi og var hún haldin dagana 19.-20. nóvember í University of Bath í Bretlandi. 

Arnar Bjarni og Unnar Freyr eru nemar í grunnnámi í tölvunarstærðfræði og Bjarki er í meistaranámi í tölvunarfræði við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Liðið byrjaði á að fara í æfingabúðir í Rússlandi en þangað hefur lið frá HR farið undanfarin tvö ár. Bjarki Ágúst er fyrirliði liðsins: „Við vorum í viku í æfingabúðum í Rússlandi, þar sem við tókum þátt í einni keppni á dag, ásamt því að fara yfir lausnir og leysa þau dæmi sem maður náði ekki að leysa í sjálfri keppninni. Þetta var því stanslaus vinna frá því maður vaknaði þar til maður fór að sofa. Rússarnir eru mjög hæfir í keppnisforritun, en þarna voru einmitt þeir sem unnu heimskeppnina í ár.“

Screen-Shot-2016-11-25-at-11.17.27

Bjarki Ágúst Guðmundsson

Áttu meira inni

Liðið fór því næst til Bath. „Okkar liði gekk einstaklega vel í byrjun keppninnar, en við vorum í öðru sæti meirihlutann af fyrri helmingi keppninnar. Þá lentum við í basli með eitt verkefnið og eyddum löngum tíma í að finna hvað var að. Þá féllum við niður í 7. sæti, og náðum bara að klifra upp í 5. sæti áður en keppninni lauk. Við vorum smá svekktir með það, því það vantaði ekki mikið upp á að enda í 3. sæti, og við áttum meira inni.“ Bjarki segir samkeppnina hafa verið sérstaklega harða í keppninni í ár enda hafi tvö af liðunum sem höfnuðu í sætunum fyrir ofan HR, frá KTH og University of Helsinki, verið að gera frábæra hluti í mörgum alþjóðlegum keppnum síðustu ár. Efstu 3-4 liðin úr svæðiskeppninni komast áfram í heimskeppnina sem verður haldin í Rapid City í Bandaríkjunum næsta sumar. Einungis eitt lið frá hverjum háskóla er sent í heimskeppnina, en fyrir ofan okkur voru lið frá KTH, University of Helsinki, og tvö lið frá Oxford University. Lið HR er því fjórða liðið í röðinni til að komast áfram, þó að liðið hafi lent í fimmta sæti og kemst því áfram ef fjögur lið eru send í heimskeppnina. Það er þó ólíklegt að mati Bjarka.

NWERC1Búið að vera ævintýri

Bjarki segist hafa lært mikið á þátttökunni. „Þetta er búið að vera algjört ævintýri fyrir mig, og vonandi liðsfélaga mína líka, og það er margt gott búið að koma út úr þessu. Ég er búinn að eignast helling af vinum og mynda tengsl víða um Evrópu, ég hef tekið þátt í að setja upp námskeið um árangursríka forritun og lausn verkefna til að miðla reynslunni, ég hef í samstarfi við aðra nemendur skipulagt Forritunarkeppni framhaldsskólanna og erum að vinna í því að senda fyrsta íslenska liðið á Ólympíuleikana í forritun. Við erum byrjaðir að þjálfa framhaldsskólanema fyrir leikana; þeir eru því að byrja snemma í alvöru keppnisforritun og fyrr en ég byrjaði að þjálfa, og geta því vonandi komið og náð enn betri árangri fyrir hönd HR eftir nokkur ár.“

Besti árangurinn til þessa

Þetta er í fimmta skiptið sem lið frá HR tekur þátt og hefur Bjarki ávallt verið með í liði HR. Árið 2012 var liðið í 25. sæti af 85 liðum, árið 2013 var liðið í 13. sæti af 92 liðum, árið 2014 var liðið í 15. sæti af 94 liðum, árið 2015 í 6. sæti af 99 liðum og nú í ár í því 5. af 114 liðum.

Screen-Shot-2016-11-24-at-12.43.09Lokastaðan í keppninni.